Alvarleg vanræksla líklega leitt til ótímabærs andláts

25.11.2021 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Landlæknisembættið komst að þeirri niðurstöðu að læknirinn, sem er til rannsóknar vegna andláts sex sjúklinga og meðferðar fimm annarra, hefði sýnt af sér alvarlega vanrækslu og gert mistök við meðhöndlun konu, sem sett var í lífslokameðferð að ósekju. Konan lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, HSS, haustið 2019. Í áliti Landlæknis segir meðal annars að telja megi líklegt að meðferð konunnar hafi leitt til þess að andlát konunnar bar að fyrr en ella.

Fjölskylda konunnar kvartaði til Landlæknis sem rannsakaði málið. Niðurstaða Landlæknis lá fyrir í febrúar 2021 og var meðal annars sú að læknar HSS hafi sýnt af sér vanrækslu og hirðuleysi gagnvart augljósum næringarvandamálum sjúklingsins, verkjameðferð hafi verið ranglega og óhóflega beitt, og að ómeðhöndlaðar sýkingar kunni að hafa verið meðverkandi eða mögulega aðal dánarorsök konunnar, en hún var með slæm legusár.

Reyndi að varpa ábyrgðinni á sjúklinginn

Læknirinn, sem bar meginábyrgð á meðferð hennar, hafi sýnt af sér alvarlega vanrækslu, segir í áliti Landlæknis. Hann hafi brugðist skyldum sínum og leitast við að varpa ábyrgðinn á sjúklinginn.

„Í ellefu vikna langri legu hrakaði [konunni]; hún var með legusár, næringarskort og sýkingar allt fram til andlátsins, sem verður að telja líklegt að hafi orðið fyrr en ella vegna þeirrar meðferðar sem hún hlaut.“

Þá hafi læknirinn haldið því fram að lífslokameðferð hafi verið hafin vegna misskilnings við skráningu og að tæknilegt atriði hafi ráðið skráningu LLM í stað LM, þ.e. lífslokameðferð í stað líknarmeðferð. Landlæknir fellst ekki á þessa skýringu, enda  lífslokameðferð skráð því nafni í sjúkraskrá við innlögn og í vottorði sem læknirinn skrifaði sjálfur.

„Það er álit landlæknis að [læknirinn] hafi mælt fyrir um og hafið lífslokameðferð án þess að staðfesta, tilgreina ástæðu eða leiða fullnægjandi líkum að því að dauðinn hafi verið yfirvofandi. Ennfremur án viðeigandi samráðs við aðstandendur og samstarfsfólk. Skýringar hans eftirá á þá leið að fyrir honum hafi vakað að beita einkennameðferð eða líknarmeðferð eru í engu samræmi við gögn og málsatvik og fá því ekki staðist.“

Læknirinn starfaði áfram á HSS í tæpt ár eftir að kvörtun barst vegna andláts konunnar. Hann var síðan sendur í leyfi en sagði svo sjálfur upp. Síðar var hann svo sviptur læknaleyfi tímabundið. Hann var ráðinn til starfa undir eftirliti hjá Landspítala, en fékk endurnýjað takmarkað starfsleyfi fyrr í þessum mánuði. Læknirinn er nú við störf á Landspítala.