„Umræðan oft eins og ég hafi horfið í tvö ár“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Umræðan oft eins og ég hafi horfið í tvö ár“

24.11.2021 - 17:25
Karlalandsliðið í körfubolta leikur fyrsta leik sinn í undankeppni HM 2023 á föstudag. Í fyrsta sinn í tvö ár er Martin Hermannsson í leikmannahópi íslenska liðsins og hann hlakkar mikið til að fá loks að spila fyrir landsliðið að nýju.

 

Martin hefur undanfarin ár leikið með liði Valencia á Spáni. Valencia leikur í Euroleaguedeildinni og liðin þar eru lítið hrifin af því að leikmenn spili undankeppnisleiki með landsliðum sínum. Því hefur Martin ekki getað leikið með landsliðinu í tvö ár.

„Þetta er búinn að vera langur tími, erfiður tími, sem maður hefur verið í burtu. Þetta eru skemmtilegustu leikir sem maður spilar á ferli sínum, með vinum sínum fyrir hönd Íslands og ég er virkilega ánægður,“ segir Martin.

Þótt Martin hafi ekki náð að spila með liðinu hefur hann tekið þátt í æfingum liðsins yfir sumartímann. Auk þess er sami þjálfari og verið hefur allan landsliðsferil Martins, Craig Pedersen.

„Mér finnst umræðan oft vera eins og ég hafi horfið í tvö ár og kem svo aftur og tala ekki íslensku eða eitthvað svoleiðis. Ég er búinn að vera, eins og í sumar, með á öllum æfingum og í kringum hópinn. Við erum að spila á því sama og síðan Craig tók við liðinu 2014 þannig að ég er ekkert að koma að hlutunum og allt nýtt. Þetta er eitthvað sem ég er búinn að vera í með landsliðinu í sex ár,“ segir Martin.

Gaman að geta hjálpað þeim yngri

Mikil endurnýjun hefur orðið í íslenska liðinu undanfarin ár og margir sterkir og reyndir leikmenn hafa hætt. Það hefur gert það að verkum að Martin er nú orðinn einn af eldri leikmönnum liðsins, þó hann sé ekki nema 27 ára.

„Það er það versta við að koma aftur!“ segir hann og glottir.

„Þetta er smá reality check að koma inn og vera allt í einu orðinn leikjahæstur og ætli ég sé ekki fjórði eða fimmti elsti í liðinu sem er nýtt fyrir mér. Maður vissi að það kæmi að því einhvern tímann og gaman að vera kominn hinum megin við borðið og geta hjálpað yngri leikmönnum og miðlað af reynslu.“

Nánast með okkar sterkasta lið

Íslenska liðið fór í gegnum tvær forkeppnir til að komast inn í riðlakeppni undankeppninnar fyrir HM. Framundan er riðill með Hollandi, Rússlandi og Ítalíu og Hollendingar eru fyrsti andstæðingurinn á föstudagskvöld.

„Þetta verður erfiður leikur, allir þessir leikir í riðlinum verða erfiðir leikir. En þetta eru allt leikir sem við getum unnið. Við erum nánast með okkar sterkasta lið, við söknum náttúrulega Hauks [Helga Pálssonar] mikið. Við erum alltaf búnir að tala um hvað geti gerst þegar við náum öllum okkar sterkustu saman og við erum með 90% af liðinu og við erum spenntir að spila saman og sjá hvað við getum gert. Ég væri hissa ef það væri ekki krafa á sigur á móti Hollendingum,“ segir Martin.

Leikur Íslands og Hollands er á föstudag klukkan 18:30 og er sýndur beint á RÚV 2. Upphitun hefst í HM-stofunni klukkan 18:00.

Eftir leikinn á föstudag heldur íslenska liðið til Rússlands og mætir þarlendum á mánudag. Sá leikur er beint á RÚV 2 klukkan 17 á mánudag.