Þurfa að sýna bólusetningarvottorð við matarúthlutun

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RUV
Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur áætlar að um sextán hundruð heimili þurfi mataraðstoð fyrir komandi jól. Fólk þarf að framvísa bólusetningarvottorði til þess að fá að koma inn í úthlutunarstöð nefndarinnar.

Hátt í þúsund heimili reiða sig á mataraðstoð Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur í hverjum mánuði. Úthlutun fer fram í húsnæði nefndarinnar við Hátún og þar vinna sjálfboðaliðar við að aðstoða fólk.

Opnað verður fyrir umsóknir um jólaaðstoð í næstu viku en úthlutunin fer fram síðar í desember.

„Í fyrra vorum við með tæplega sextán hundruð heimili sem fengu aðstoð fyrir jólin og við eigum von á svipuðum fjölda í ár. Við erum bæði með mat og jólagjafir,“ segir Anna H. Pétursdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.

Fólk þarf nú að framvísa bólusetningarvottorði til að fá að koma inn í húsnæði Mæðrastyrksnefndar þar sem úthlutun fer fram.

„Við erum bara að biðja um vottorð um að þú sért búin að láta bólusetja þig. Það er það eina sem við erum að gera. Við viljum bara fá að sjá það áður en fólk kemur hérna inn. Bara til þess að verja okkur. Því við erum sjálfboðaliðar og við viljum geta haldið jólin. Við erum hræddar um það að ef einhver hérna smitast þá þurfum við bara að loka og við ætlum ekki að láta það gerast,“ segir Anna.

Á vef landlæknis segir að meiri hætta sé á að óbólusettir smiti frá sér heldur en þeir sem eru bólusettir.

Anna segir að fólk hafi almennt tekið þessum reglum vel og fáir hafi kvartað.

„Það voru bara allir með þetta í símanum og sýndu okkur. Bæði í gær og í dag. Það var einn eða tveir sem kvörtuðu. Það var ekki meira en það,“ segir Anna.

En þeir sem eru óbólusettir fá þeir þá ekki mataraðstoð?

„Ef þeir geta ekki látið bólusetja sig þá setjum við í poka og förum með matinn út til þeirra. Það er bara svoleiðis,“ segir Anna.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV