Ómar hjá KSÍ um Eið: „Klárt að aðdragandinn er langur“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Ómar hjá KSÍ um Eið: „Klárt að aðdragandinn er langur“

24.11.2021 - 12:50
Ómar Smárason, samskiptastjóri hjá KSÍ, segir starfslok Eiðs Smára Guðjohnsen sem aðstoðarþjálfara karlalandsliðsins hafa átt sér langan aðdraganda. Um persónulegt mál sé að ræða en Eiður Smári var sendur í leyfi vegna áfengisvanda síðastliðið sumar. Þá segist Ómar ekki kannast við að leikmaður liðsins hafi farið yfir strikið í áfengisneyslu í Norður-Makedóníu.

Í tilkynningu frá KSÍ sem barst seint í gærkvöld segir að samkomulag hafi verið gert milli KSÍ og Eiðs um starfslok hans. Samkvæmt heimildum RÚV var kornið sem fyllti mælinn atvik eftir leik Íslands gegn Norður-Makedóníu þar sem áfengi var haft um hönd. Ómar vildi þó ekki nefna aðra ástæðu fyrir starfslokunum en persónulegar ástæður. „Það snýr bara að persónulegum málefnum og ég get ekki bætt neinu við sem stendur í yfirlýsingunni um það en það er alveg klárt að aðdragandinn er langur,“ segir Ómar.

Síðastliðið sumar fór Eiður  í tímabundið leyfi frá störfum hjá KSÍ vegna áfengisvanda síns og var þá áminntur í starfi. Því má segja að hann hafi verið kominn á síðasta séns hjá sambandinu.
„Varðandi þetta sem gerðist í sumar er bara mál sem við unnum eftir okkar bestu sannfæringu á sínum tíma, eins og ég segi eru þetta bara persónuleg málefni og aðdragandinn langur án þess að ég vilji fara eitthvað nánar út í það,“ segir Ómar.

Tveir þjálfarar hætt á rúmi ári vegna áfengisneyslu en KSÍ hyggst ekki banna áfengi í landsliðsferðum

Jón Þór Hauksson var látinn fara sem þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta eftir atvik þar sem áfengi var haft um hönd í landsliðsferð. Ómar segir KSÍ ekki hugnast að banna það alfarið í ferðum liðanna þrátt fyrir að tveir landsliðsþjálfarar séu hættir vegna þess á rúmu ári.

„Við höfum í sjálfu sér ekki haft áhyggjur af þessu í tengslum við landsliðin almennt og sjáum ekki ástæðu til þess að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir. Auðvitað gerist það að menn fá sér 1-2 bjóra eftir verkefni og flestir láta það duga og fara svo að sofa og sumir fá sér ekkert,“ segir Ómar.
En það eru einhverjir sem ráða ekki við það?
„Fólk verður bara að bera ábyrgð á sér sjálft það verður að vera þannig,“ segir Ómar.

Kannast ekki við að leikmaður hafi farið yfir strikið

Þá hafa fjölmiðlar greint frá því í dag að landsliðsmaður hafi sömuleiðis farið yfir strikið í áfengisneyslu eftir leikinn. Hann er þó ekki nafngreindur. Ómar sagðist ekki kannast við það. „Nei, ég kannast ekki við það, ég var svo sem farinn út á flugvöll áður en liðið kom, ég er partur af þeim hóp sem fer á undan liðinu með töskurnar þannig að ég var ekki var við það nei.“

Margir furðuðu sig á tímasetningu tilkynningarinnar en KSÍ sendi hana á fjölmiðla þegar klukkan var að ganga tólf á miðnætti. „Það eru bara praktískar ástæður fyrir því. Fundurinn var í gær, hann er langur, dregst á langinn. Eitt af því sem rætt var á fundinum var einmitt þetta mál sem við erum að tala um. Eftir að fundinum lýkur þá er bara farið í það að ganga frá ýmsum málefnum eins og að láta alla vita sem þurfa að vita. Það var bara allt klárt um ellefu leytið og tilkynningin send út um hálf tólf þannig það er bara eðlilegur tímarammi. Okkur fannst bara vissara að senda þetta út um leið og þetta lá fyrir frekar en að bíða til morguns,“ segir Ómar.

Leita að nýjum aðstoðarmanni Arnars og formaðurinn tjáir sig ekki

RÚV hefur reynt að ná í formann KSÍ, Vöndu Sigurgeirsdóttur, í dag og fleiri stjórnarmenn án árangurs. Afhverju er formaðurinn ekki til viðtals þegar um svona ræðir? „Vanda er nú bara með bókaða fundi í dag og verður líka upptekin eftir hádegi og það var auðvitað þrýstingur frá fjölmiðlum að svara erindum, þannig að ég tók það bara að mér,“ segir Ómar.

Arnar Þór Viðarsson hefur unnið með Eið Smára sér við hlið bæði sem þjálfari undir 21 árs liðsins og nú A-liðsins. Verður Arnar áfram þjálfari liðsins?
„Arnar er með gildan samning og engin ákvörðun verið tekin um breytingar á honum eða ræddar eftir því sem ég best veit og það verður bara farið í það leita að nýjum aðstoðarþjálfara og arnar mun hafa mest um það að segja hver það verður og vonandi gengur það bara hratt og örugglega svo við finnum bara besta manninn í starfið,“ segir Ómar.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eiður Smári Guðjohnsen

Tengdar fréttir

Fótbolti

Atvik eftir leikinn í N-Makedóníu ástæða starfslokanna

Íþróttir

Eiður Smári hættur sem aðstoðarlandsliðsþjálfari