Njarðvík vann stórleikinn gegn Fjölni

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Njarðvík vann stórleikinn gegn Fjölni

24.11.2021 - 20:57
Njarðvík er eitt í efsta sæti Subway-deildar kvenna í körfubolta eftir sigur á Fjölni í stórleik umferðarinnar, 71-64. Grindavík vann mikilvægan sigur í botnbaráttunni.

Þrír leikir voru í deildinni í kvöld. Njarðvík, sem sat á toppnum ásamt Keflavík,. sótti Fjölni, sem var í þriðja sæti tveimur stigum á eftir, heim í Grafarvoginn. FJölniskonur voru sterkari í fyrri hálfleik og voru 5 stigum yfir að honum loknum, 36-31. Í síðari hálfleik sneri Njarðvík leiknum sér í vil og fyrir lokafjórðunginn var Njarðvík 4 stigum yfir. Fjölnir sótti aftur að í lok leiksins og minnkaði muninn í 1 stig þegar 16 sekúndur voru eftir. Njarðvík skoraði hins vegar 6 síðustu stig leiksins af vítalínunni og vann 71-64.

Njarðvík er nú með 14 stig í efsta sæti, tveimur meira en Keflavík, sem á leik til góða, og Valur. Valur vann botnlið Skallagríms örugglega í kvöld, 92-47.

Grindavík tók fyrr í kvöld á móti Breiðabliki í lykilleik í botnbaráttunni og vann 15 stiga sigur, 90-75. Sigurinn var talsvert öruggari en lokatölurnar gefa til kynna því 22 stigum munaði fyrir lokafjórðunginn. Grindavík er með 6 stig eftir sigurinn en er áfram í 6. sæti en núna fjórum stigum á undan Breiðabliki sem er í næstneðsta sæti.