Manchester City áfram eftir sigur á PSG

epa09601468 Paris Saint-Germain's Lionel Messi (C) in action against Manchester City's Raheem Sterling (L) and Oleksandr Zinchenko (R) during the UEFA Champions League group A soccer match between Manchester City and Paris Saint-Germain (PSG) in Manchester, Britain, 24 November 2021.  EPA-EFE/Peter Powell
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Manchester City áfram eftir sigur á PSG

24.11.2021 - 21:56
Næstsíðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fótbolta lauk í kvöld. Manchester City vann PSG á heimavelli, 2-1, og tryggðu bæði lið sæti sitt í 16-liða úrslitum. Real Madrid og Inter tryggðu sig áfram en Dortmund situr eftir.

A-riðill

Fyrri hálfleikur var markalaus í Manchester í kvöld en Kylian Mbappe kom PSG yfir á 50. mínútu. City svaraði með tveimur mörkum; fyrst frá Raheem Sterling á 63. mínútu og svo frá Gabriel Jesus á 77. mínútu og 2-1 urðu úrslitin. 

Í hinum leik riðilsins vann Leipzig Club Brugge 5-0. Það gerir það að verkum ao hvorki Leipzig né Brugge geta náð PSG eða City að stigum og því ljóst hvaða lið fara áfram.

City er með 12 stig og vinnur riðilinn, PSG er með 8 stig og Brugge og Leipzig 4 stig hvort.

Í lokaumferðinni tekur City á móti Brugge og PSG sækir Leipzig heim.

B-riðill

Í þessum riðli er staðan bæði ljós og flókin. Liverpool tók á móti Porto í kvöld, en Liverpool var þegar komið áfram. Liverpool vann 2-0 í kvöld. Á sama tíma vann AC Milan Atletico Madrid 1-0.

Liverpool er búið að vinna riðilinn og er með 15 stig, fullt hús stiga. Porto og Atletico eru með 5 stig og AC Milan 4 og því ræðst restin í lokaumferðinni. Þar mætast Liverpool og Atletico Madrid og AC Milan og Porto.

C-riðill

Í þessum riðli heldur Ajax áfram sigurgöngu sinni. Þeir unnu Besiktast í Tyrklandi, 2-1, og hafa unnið alla leiki sína. 

Sporting Lissabon og Dortmund mættust svo og vann Sporting 3-1. Það fleytir þeim upp fyrir Dortmund á betri innbyrðisúrslitum og Dortmund úr leik.

Ajax er með 15 stig á toppnum, Sporting er með 9, Dortmund 6 og Besiktas er án stiga. 

Í lokaumferðinni mætast Ajax og Sporting og Dortmund og Besiktas.

D-riðill

Inter og Real Madrid tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum í þessum riðli í kvöld. Inter vann Shakhtar Donetsk 2-0 og Real Madrid lagði Sheriff 3-0.

Real er með 12 stig í efsta sæti riðilsins, Inter er með 10, Sheriff með 6 og Donetsk 1.

Í lokaumferðinni mætast Real og Inter í úrslitaleik um sigur í riðlinum og Sheriff og Donetsk mætast í leik þar sem aðeins heiðurinn er undir.