Lögregla rannsakar sex andlát á HSS

24.11.2021 - 09:41
Úr umfjöllun Kveiks um offituaðgerðir.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Lögreglan á Suðurnesjum hefur til rannsóknar andlát sex sjúklinga á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem hún telur að ætla megi að hafi verið ótímabær og borið að með saknæmum hætti. Meðferð fimm annarra sjúklinga er einnig til rannsóknar en lögregla hefur rökstuddan grun um að þeir hafi verið skráðir í lífslokameðferð að tilefnislausu og með því hafi öryggi þeirra verið ógnað.

Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þar sem fallist var á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að svara fjórum spurningum í tengslum við andlát eins sjúklings.  Landsréttur staðfestir úrskurðinn í vikunni.

Aðstandendur sjúklingsins kærðu þrjá starfsmenn HSS til lögreglu  í febrúar á þessu ári. Samkvæmt úrskurði héraðsdóms hafa þó aðeins tveir starfsmenn réttarstöðu sakbornings, læknir og heilbrigðisstarfsmaður.   

Matsmennirnir eiga að svara hver dánarorsök sjúklingsins var, hvort forsendur til að hefja lífslokameðferð hafi verið til staðar og verklagi við framkvæmd hennar fylgt, hvort lyfjagjöf til handa sjúklingnum hafi verið eðlileg og hvort rétt hafi verið staðið að sjúkdómsgreiningum sjúklingsins. 

Báðir sakborningar lögðust gegn matsbeiðninni.  Heilbrigðisstarfsmaðurinn taldi að líta yrði til þess tjóns sem málið valdi þeim og hvort hægt væri að rannsaka málið án matsgerðar. Matsferlið valdi miska og tjóni.  Hann væri ekki nefndur í sérfræðiáliti sem landlæknir hefði aflað í tengslum við andlát sjúklingsins og landlæknir hefði ekki gripið til neinna aðgerða gagnvart sér.

Læknirinn tók fram að hann teldi rétt að dómkveðja matsmenn en það yrði ekki gert samkvæmt þeirri beiðni sem fyrir lægi.  Þá skorti á hvað lögreglustjórinn ætlaði að sanna með matinu.

Ætluð brot læknisins varða að sögn lögreglustjórans við ákvæði 211., 213., 215. og 220. grein hegningarlaga sem og ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn. Brot heilbrigðisstarfsmannsins eru einungis talin varða 220. grein hegningarlaga og ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn.

Í úrskurðinum kemur fram að lögreglustjórinn er með tvö álit óháðra sérfræðinga sem bæði hafi verið gerð að beiðni embættis landlæknis. Annað varði störf læknisins og hafi verið gert eftir athugasemdir frá starfsfólki vegna sjúklinga og er dagsett 27. október á síðasta ári.

Hitt er álit óháðs sérfræðings vegna kvörtunar frá aðstandendum sjúklingsins sem dómkvöddu matsmennirnir eiga að svara spurningum um. 

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að í fyrrnefnda álitinu sé komist að þeirri niðurstöðu að læknirinn hafi sýnt alvarlegan brest í faglegri þekkingu sem ógnað hafi öryggi sjúklinga. Í síðarnefnda álitinu var niðurstaða sérfræðingsins að vanræksla hefði átt sér stað í veitingu heilbrigðisþjónustu.

Í úrskurðinum segir síðan: „Í málinu [er] verið að rannsakað andlát/mannslát sex einstaklinga sem ætla megi að hafi verið ótímabær og borið að með saknæmum hætti. Þá rannsaki lögregla einnig meðferð fimm annarra sjúklinga sem rökstuddur grunur sé um að hafi verið skráðir í lífslokameðferð á [...] að tilefnislausu og með því hafi öryggi þeirra verið ógnað.“

Fram kemur í úrskurðinum að lögreglustjórinn hafi í nóvember á síðasta ári fengið tilkynningu frá framkvæmdastjóra lækninga vegna starfa læknisins. Telur lögregla að þar hafi verið tilkynnt mál vegna þriggja sjúklinga. 

Lögregla hefur sömuleiðis fengið upplýsingar frá aðstandendum þriggja sjúklinga til viðbótar sem dóu eftir lífslokameðferð á árunum 2018 til 2020. Þá kemur fram að lögreglustjórinn leitaði til héraðsdóms til að fá álit landlæknis vegna andláta tveggja annarra sjúklinga.