„Liðið er búið að vera að smella undanfarin ár“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Liðið er búið að vera að smella undanfarin ár“

24.11.2021 - 19:00
Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta, segir það mikilvægt fyrir liðið að hafa fengið þá Martin Hermannsson og Jón Axel Vilhjálmsson aftur inn í hópinn. Framundan er leikur við Holland sem Kristófer segir vel hægt að vinna.

 

Kristófer er bjartsýnn á gott gengi í fyrsta leiknum á föstudag. Eftir hann bíður svo leikur við Rússland á mánudag en fyrst þarf að takast á við Hollendinga.

„Ég held að við séum í góðum séns á að fara og ná í sigur. Ég hef aldrei spilað við Holland áður en mér líst vel á hópinn eins og hann er núna. Við erum náttúrulega komnir með Martin [Hermannsson] og fáum Jón Axel [Vilhjálmsson] inn í þetta, sem við vorum ekki með í síðasta glugga og liðið er búið að vera að smella saman undanfarið ár,“ segir Kristófer.

Kristófer segist lítið vera farinn að spá í leikinn í Rússlandi á mánudag. Næsti leikur sé alltaf sá mikilvægasti.

„Við tökum einn leik í einu og erum að fókusera á Hollendingana núna. Öll stig sem eru í boði í þessum riðli eru mikilvæg og eins og staðan er í dag fókuserum við á leikinn á föstudag og vonandi förum við í það og náum í sigur og þá getum við farið að fókusera á leikinn á mánudaginn,“ segir Kristófer Acox.

Leikur Íslands og Hollands er á föstudag klukkan 18:30 og er sýndur beint á RÚV 2. Upphitun hefst í HM-stofunni klukkan 18:00.

Leikurinn við Rússland er svo beint á RÚV 2 klukkan 17 á mánudag.

 

Tengdar fréttir

Körfubolti

„Umræðan oft eins og ég hafi horfið í tvö ár“