Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Lét Garðabæ vita af harðræði Hjalteyrarhjóna

24.11.2021 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Eftirlit var aukið með hjónunum Beverly og Einari Gíslasyni sem voru dagforeldrar og leikskólakennarar í Garðabæ, eftir ábendingu frá manneskju sem dvaldi á vistheimili hjónanna á Hjalteyri. Þetta segir bæjarstjórinn í Garðabæ. Viðkomandi hafði verið látinn borða sápu á vistheimilinu á Hjalteyri. „Þar var mikill agi, börnum hótað, þau látin borða sápu og rassskellt.“

Fólk sem dvaldi á vistheimilinu á Hjalteyri steig fram í fjölmiðlum í upphafi vikunnar og lýsti kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi af hálfu hjónanna Beverly og Einars Gíslasonar. Þau ráku vistheimilið á árunum 1972 til 79. Kvartanir um harðræði bárust félagsmálayfirvöldum á Akureyri sem hættu í kjölfarið að senda börn þangað. Aðrar barnaverndarnefndir hættu síðan einnig að senda börn á heimilið og var það því lagt niður. Hjónin voru þó ekki svipt starfsleyfi.

Tóku til starfa í Garðabæ 15 árum eftir Hjalteyri

Fimmtán árum seinna voru þau komin til starfa í Garðabæ og Beverly varð leikskólakennari 1994. Hjónin voru svo dagforeldrar 1998 til 2003. Eftir það ráku þau leikskóla, Montessori-setrið. Þau luku störfum sem dagforeldrar og leikskólakennarar 2015.   

Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa ákveðið að gera úttekt á störfum hjónanna og hafa hvatt foreldra og börn sem voru í gæslu hjá hjónunum um að senda inn ábendingar. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir engar kvartanir hafa borist vegna starfa þeirra í bæjarfélaginu. Þó hafi manneskja sem dvalið hafi á Hjalteyri haft samband við Garðabæ og lýst vistinni nyrðra. 

Börnum hótað og látin borða sápu

„Við fengum þarna símtal 2008 að mig minnir. Það snerist að mestu að því að viðkomandi hafi verið beittur harðræði frekar en einhverju öðru. Þar var mikill agi, börnum hótað, þau látin borða sápu og rassskellt. Þetta var tilkynnt hér inn. En það var ekki minnst á neitt kynferðislegt ofbeldi en hitt er auðvitað nógu slæmt til þess að hafa verulegar áhyggjur. Eftir að hafa fengið þetta símtal þá bara lögðum við enn meiri áherslu á að fylgjast með þeirra starfsemi,“ segir Gunnar. 

Gunnar segir að engar kvartanir hafi fundist frá foreldrum barna undan hjónunum eða kennsluaðferðum þeirra. 

En hvernig getur það gerst að fólk sem starfar með börnum á Hjalteyri og hefur svo slæmt orðspor að allar barnaverndarnefndir hætta að senda börn þangað, geti flutt í annað sveitarfélag og aftur farið að starfa með börnum?

„Þetta gerist 1995 sem þau koma hér sem dagforeldrar. Dagforeldra- og leikskólakerfið eru undir mjög ströngu eftirliti. Þegar fólk sækir um starfsleyfi fyrir leikskóla þá fer það í gegnum menntamálaráðuneytið. Varðandi dagforeldrakerfið þarf fólk að sýna fram á hreint sakavottorð og tilheyrandi menntun. Þó að þetta hafi verið umræða um Hjalteyri á sínum tíma, þá var ekkert sem bendi til þess að það hefði farið fram neitt saknæmt. Það voru engar ákærur eða slíkt. Við bara lögðum áherslu á það að þarna væri verið að vinna á faglegan hátt með börnum og til þess hafði viðkomandi menntun og studdist við ákveðna stefna sem er viðurkennd stefna. Auk þess var eftirlitið með þeim hætti sem ég lýsti áðan,“ segir Gunnar.