Klámnotkun hafi áhrif á viðhorf til sambanda og kynlífs

24.11.2021 - 12:30
Verkefnastjóri Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar segir til mikils að vinna að takmarka aðgengi barna og ungmenna að klámi eins mikið og hægt er. Hugmyndir eru um að nota rafræn skilríki til að hefta aðgang ungmenna að klámi á netinu. Netöryggissérfræðingur telur að það sé tæknilega ómögulegt.

Þetta kom fram í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun. Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastjóri Jafnréttisskólans, segir að rannsóknir sýni að klám hafi skaðleg áhrif á börn og ungmenni. „Það verða breytingar á heilanum, kynsvörunarsvæðið verður of stórt, þannig að þetta hefur áhrif á kynsvörun, sem getur lýst sér þannig að líkaminn bregst ekki við þegar viðkomandi verður kynferðislega örvaður,“ segir Kolbrún Áhrifin séu ekki bara líkamleg. „Þeir sem eru að horfa reglulega á klám og byrja mjög snemma sýna allt önnur viðhorf til sambanda og samskipa, til valdaójafnvægis í kynlífi, og þetta er líka að ýta undir þætti eins og kvíða og skömm og einmanaleika,“ segir Kolbrún. 

Tæknilega ómögulegt

Valdimar Óskarsson, netöryggissérfræðingur hjá Syndis, er sammála því að það sé til mikils að vinna með því að takmarka aðgengi barna að klámi, en hann óttast að það sé tæknilega ómögulegt að loka fyrir klám með rafrænum skilríkjum.

„Tæknilega þá er það ekki hægt,“ segir Valdimar. Þá geti verið erfitt fyrir kerfið að meta hvað sé klámsíða og hvað ekki. Hann bendir á að á TikTok og síðum eins og Onlyfans sé stundum að finna klámefni innan um annað efni. Ef lokunin eigi að vera útfærð þannig að hver og einn notandi þurfi að einkenna sig með rafrænum skilríkjum til að komast inn á netið þá hafi það í för með sér töluvert miklar takmarkanir netnotkun. Honum hugnast betur aðrar leiðir.

„Þetta ætti að vera samspil foreldra og skóla, því að það er komið í langflest snjalltæki í dag það sem er kallað „parental control,“ þar sem foreldrar geta stýrt svolítið netnotkun barnanna og á lokunin á sér stað þar,“ segir Valdimar. 

„Það er aldrei þannig, og það er enginn sem heldur því fram, að með því að hindra aðgengi þeirra að klámi þá séum við að leysa vandann,“ segir Kolbrún. Meira þurfi að koma til.

„Við þurfum að stórauka kynfræðslu og við þurfum að skoða ýmsar leiðir til þess að hindra aðgengi þeirra.“

„Það er enginn sem heldur í blindni að með því að setja einhverjar síur eða rafræn skilríki að þá séum við að koma í veg fyrir alla klámnotkun barna, en ef við getum hindrað aðgengi þeirra og minnkað það, þá erum við strax að vinna mjög stóran sigur,“ segir Kolbrún.