Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kærir oddvita yfirkjörstjórnar til lögreglu

Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi Alþingismaður og umboðsmaður Pírata í nýafstöðnum þingkosningum, hefur lagt fram kæru gegn oddvita yfirkjörstjórnar norðvesturkjördæmis til lögreglu fyrir mögulegt kosningasvindl. Hann segir oddvitann meðal annars hafa með lögbroti skapað sér tækifæri til að svindla á atkvæðunum í Alþingiskosningunum.

Jón Þór greinir frá kærunni í aðsendri grein á Vísi í dag. Hann byggir kæruna á lýsingu málsatvika í greinargerð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa. Hann beinir þremur atriðum til lögreglu og spyr hvort þau sýni að nægar líkur séu á að oddvitinn, Ingi Tryggvason, hafi brotið lög með því að hafa vísvitandi rangfært atkvæðagreiðslu.

Með vísan í greinargerðina segir hann oddvitann hafa skapað sér tækifæri til að svindla á atkvæðum í Alþingiskosningum. Hann hafi hraðað svo endurtalningu atkvæðanna þannig að lögbundið eftirlit var ómögulegt, og hann hafi farið rangt með þau málsatvik sem benda á mögulega sekt hans í gerðabók, í fjölmiðlum, fyrir þingnefnd og lögreglu.

Ingi var einn í sal Hótels Borgarness með óinnsigluðum atkvæðum í rúman hálftíma um hádegi sunnudaginn 26. september. Á myndum af vettvangi má sjá að á borðum voru blýantar með strokleðri. Jón Þór segir í greininni á Vísi að ein mínúta nægi til að rangfæra atkvæðagreiðsluna með strokleðri og blýanti. „Í þessu tilfelli var um að ræða nægan tíma fyrir viðkomandi til að sýsla með hin óinnsigluðu kjörgögn til að rangfæra atkvæðagreiðsluna með því að stroka út atkvæði 9 kjósenda og merkja á atkvæðaseðilinn við aðra flokka í staðinn,“ skrifar Jón Þór. Hann bætir því við að slíkt varði allt að fjögurra ára fangelsi samkvæmt 128. grein laga um kosningar til Alþingis.

Jón Þór krefst þess að lögregla hefji rannsókn málsins án tafar „enda málið þess eðlis.“