Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Íshellan á Grímsvötnum byrjuð að síga

24.11.2021 - 15:24
Grímsvötn
 Mynd: Atlantsflug - Ljósmynd
Samkvæmt mælingum í Grímsvötnum lítur út fyrir að íshellan sé farin að síga. Það gæti verið vísbending um að Grímsvatnahlaup sé í vændum, segir á vef Veðurstofunnar. Vísindaráð almannavarna er á fundi um stöðuna og verða frekari upplýsingar birtar að honum loknum.

Á vef Veðurstofunnar segir að dæmi séu um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs getur hleypt af stað gosum að því talið er. Þannig varð atburðarásin árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Síðasta eldgos í Grímsvötnum var árið 2011.

Uppfært klukkan 16:53: 
Íshellan hefur sigið um tæpa 60 sentimetra á síðustu dögum. Hraðinn á siginu hefur verið að aukast síðasta sólarhringinn. Allar líkur eru því á að vatn sé farið að streyma úr Grímsvötnum og að von sé á hlaupi í Gígjukvísl. Miðað við mælingar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum núna má reikna með að hámarksrennsli hlaupsins verði um fimm þúsund rúmmetrar á sekúndu. Það ætti að öllum líkindum að hafa lítil áhrif á mannvirki. Veðurstofan segir þó full snemmt að segja til um hvert umfang hlaupsins getur orðið. Búist er við að hlaupvatn komi fram við jökuljaðarinn á næstu tveimur dögum og nái hámarki á fjórum til átta dögum eftir það.

Enn sem komið er mælist engin aukning í rafleiðni í Gígjukvísl. Aukin rafleiðni er skýrasta merki þess að hlaupvatn sé komið undan jöklinum. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV