Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hvítasunnukirkjan: Engin tengsl við Hjalteyrarheimilið

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Þau sem dvöldu á vistheimilinu hafa lýst því að hjónin Einar og Beverly hafi verið virk í starfi Hvítasunnukirkjunnar og meðal annars hafi börn á heimilinu verið látin safna peningum fyrir kirkjuna. Hvítasunnukirkjan segir að hjónin hafi aðeins verið félagar í söfnuðinum.

Heimilið var rekið af hjónunum Einari Gíslasyni og Beverly 1972 til 79 á Hjalteyri. Þau sem voru vistuð þar sem börn hafa lýst kynferðisofbeldi hjónanna og öðru ofbeldi.

 

 

Kom sveitarstjóra í opna skjöldu

Hjalteyri er í sveitarfélaginu Hörgársveit. Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að engar kvartanir hafi borist vegna vistheimilisins á síðustu árum.

„Eins og ég hef sagt þá kom þetta mál mér algjörlega í opna skjöldu. Ég hafði ekki hugmynd um þetta, reyndar ekki búinn að vera hér nema á sjöunda ár. En þetta hefur ekkert verið í umræðu hér í þessu sveitarfélagi og engar kvartanir borist,“ sagði Snorri.

Söfnuðu fyrir kirkjuna

Þau sem dvöldu á vistheimilinu hafa lýst því að hjónin Einar og Beverly hafi verið virk í starfi Hvítasunnukirkjunnar og meðal annars hafi börn á heimilinu verið látin safna peningum fyrir kirkjuna. Hvítasunnukirkjan segir að hjónin hafi aðeins verið félagar í söfnuðinum.

„Þau voru bara meðlimir hér eins og hver annar og gegndu engum trúnaðarstörfum fyrir kirkjuna,“ segir Jóhanna Norðfjörð, prestur Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri.

Í blaðinu Íslendingi var árið 1972 fjallað um vistheimilið. Í greinarlok þakka hjónin þeim sem hafa gert rekstur vistheimilisins að veruleika, þá á meðal Hvítasunnusöfnuði Akureyrar. 

Tók kirkjan einhvern þátt í þessu starfi þarna á Hjalteyri með stuðningi eða styrkjum?

„Nei, það kemur hvergi fram. Þetta var algjörlega þeirra einkarekstur og kirkjan kom hvergi nærri því,“ segir Jóhanna.