Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Götulistaverk í Madríd ýfir upp gömul sár

Mynd: Mateo Maté / mateomate.com

Götulistaverk í Madríd ýfir upp gömul sár

24.11.2021 - 10:26

Höfundar

Götulistaverk í austurhluta Madridar á Spáni hefur enn á ný valdið deilum og sárindum á milli þeirra sem vilja gera upp valdatíma Frankós á síðustu öld og þeirra sem vilja láta kyrrt liggja.  

Klofin þjóð og tvístraðar fjölskyldur

Hörmungar borgarastríðsins á Spáni 1936 til 1939 og í kjölfarið valdatíð fasista undir stjórn Frankós allt til ársins 1975 hafa þjakað spænsku þjóðina æ síðan, í raun klofið hana. Fjölskyldur hafa tvístrast og það hefur reynst Spánverjum þrautin þyngri að takast á við þessa fortíð, tala um hana og gera hana upp. Margir flýja vandann með því einfaldlega að þegja og ræða ekki málið, en með reglulegu millibili koma upp mál á Spáni sem ýta við fólki, deilur rísa og djúp sár ýfast upp.

Frankó grafinn upp

Skemmst er að minnast deilnanna um líkamsleifar Frankós fyrir tveimur árum. Frankó lét sjálfur reisa minnisvarða um þá sem féllu í borgarastríðinu, um hálfa milljón manna, í Dal hinna föllnu í Madríd. Lík hans var síðan grafið þar þegar hann féll frá.  Afkomendur þeirra sem börðust gegn fasistahreyfingu Frankós voru mjög ósáttir við að hann hvíldi við hlið þeirra og spænska þingið samþykkti að líkamsleifarnar yrðu fluttar, því minnisvarðinn hafi verið hálfgert helgiskrín þeirra sem sakna einræðisstjórnarinnar. Afkomendur Frankós og fylgismenn voru mjög ósáttir við flutninginn og um þetta sköpuðust harðar deilur.

Götulistaverkið í Madríd

Og nú er enn eitt málið komið upp sem sýnir hversu klofin spænska þjóðin er og hversu þungt afleiðingar borgarastríðsins og einræðisstjórnar fasista hvílir á þjóðinni, þrátt fyrir að 46 ár séu liðin frá því að valdatíð þeirra lauk. Guardian og Euroweekly news greina fá þessu.

Deilurnar núna snúast um listaverk, götulistaverk í Madríd, eftir kunnan spænskan myndlistarmann Mateo Maté að nafni. Eigendur íbúðarhúss sem stendur á götuhorni einu í austurhluta borgarinnar gáfu Maté frjálsar hendur til að nota tvo veggi hússins til listsköpunar fyrir tæpu ári síðan.

48 götuheiti 

Hann setti upp tuttugu og fjögur skilti með tilbúnum götuheitum á sinn hvorn vegginn. Á vinstri veggnum voru skilti með götuheitum sem kennd voru við ljóðskáld og rithöfunda á borð við Federico García Lorca, Miguel Hernández, Victoriu Kent og Carmen Laforet - allt fólk sem tók eindregna afstöðu gegn fasisma.

Á hægri veggnum voru hins vegar skilti með götuheitum kennd við Frankó sjálfan og bandamenn hans eins og hershöfðingjana Emilio Mola og José Millán-Astray. Auk þess setti Maté upp tvo myndakóða sem vegfarendur gátu skannað inn á farsíma sína og fengið nánari upplýsingar um ævi og lífsferil þeirra 48 persóna sem þarna koma við sögu.

Ætunarverkið mistókst

Draumur listamannsins, Matei Maté, með verkinu var að skapa vitrænar umræður um nútímasamfélag og þjóðernishyggju. Verkið hefur nú staðið uppi í ellefu mánuði og Maté segir ljóst ætlunarverkið hafi mistekist. „Tilgangurinn var að sjá hvort að lýðræðið væri orðið það þroskað að við gætum talað um þessa sögu okkar" segir Maté. "Svarið virðist vera nei". 

Ákveðið að fjarlægja verkið

Fyrir það fyrsta fékk listaverkið ekki að vera í friði. Það var krotað og málað yfir skiltin og alls kyns skilaboð skrifuð á veggina. Íbúar í húsinu, sem komu ekki nálægt gerð verksins, urðu fyrir aðkasti. Borgarstjórninn í Madríd, en hægri flokkurinn PP Lýðflokkurinn er í meirihluta þar, hefur ákveðið að fjarlægja verkið á þeim forsendum að það hafi skapað óróa, ekki aðeins pólitískan, heldur hafi götuheitin á skiltunum ruglað vegfarendur í ríminu. 

Kreppan gerði illt verra

Listamaðurinn Matei Maté segir að lýðræðisumræðu hafi farið aftur á Spáni frá því að efnahagskreppan reið yfir landið árið 2008. Kreppan kveikti eld, pólitískan óróleika og almenna heift í samfélaginu sem óforskammaðir pólitíkusar yst á litrófi stjórnmálanna beggja vegna hafi nýtt sér á atkvæðaveiðum. Afleiðingin sé sú að oft sé erfitt að halda uppi vitrænum samfélagsumræðum.

Vilja gera upp Frankótímann

Eitt dæmi enn um skugga borgarastríðsins og einræðistímans og hversu erfitt reynist að gera hann upp á Spáni er lagafrumvarp sem samsteypustjórn Sósíalista hyggst leggja fram. Þar er kveðið á um að saksóknurum sé heimilt að rannsaka meinta glæpi sem framdir voru í skjóli og á valdatíma Frankós. Forysta Lýðflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, hefur hins vegar heitið því að koma í veg fyrir að lögin taki gildi og saka vinstri stjórnina um að tvístra þjóðinni.

Enginn afsláttur gefinn á mannréttindabrotum

Lýðflokkurinn segir að með nýju lögunum yrðu lög um sakaruppgjöf frá 1977 einskis virði, en þau hafi verið grundvöllurinn að því að Spánn komst á lýðræðisbraut á áttunda áratug síðustu aldar. Sakaruppgjöfslögin kváðu á um að andstæðingar Frankós væru leystir úr haldi og útlægir Spánverjar fengju að snúa heim. Jafnframt var fylgismönnum Frankós gefin trygging fyrir því að þeir yrðu ekki sóttir til saka. Talsmenn vinstri stjórnarinnar nú segja hins vegar að ekki sé hægt að gefa neinn afslátt af glæpum gegn mannkyni, stríðsglæpum, þjóðarmorði og pyntingum. Alþjóða mannréttindalög leyfa ekki slíkt. 

Lítið umburðarlyndi

Og þessi ágreiningur og óbrúanlega gjá endurspeglast í deilunum um listaverk Matei Maté á húsinu á götuhorninu í austurhluta Madrídar. "Þetta er mjög sorglegt" segir Maté. "Ég var barn þegar umskiptin urðu við fall Frankós, en mér finnst við núna vera að ganga í gegnum mun afturhaldssamari, umburðarlausari og óbilgjarnari skeið en fyrri kynslóð".