Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Andleg líðan helst í hendur við hæð faraldursins

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Ný rannsókn bendir til þess að andleg líðan fólks sveiflist að einhverju leyti með nýgengi covid-smita. Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor er einn rannsakenda og segir hópinn vinna að mun fleiri verkefnum um geðheilsu í faraldrinum.

400.000 þátttakendur

COVIDMENT-rannsóknarverkefnið nær til um 400 þúsund þátttakenda á Íslandi og í Danmörku, Eistlandi, Noregi, Skotlandi og Svíþjóð. 

Fyrstu niðurstöðurnar voru birtar um helgina og sýna að svo virðist sem þunglyndiseinkenni aukist með hæð faraldurs.

Aukin þunglyndiseinkenni

„Við sjáum að þegar faraldur hefst og nýgengi breytist, frá núll og upp í sirka þrjátíu smit á viku, þá tengist það aukningu eða breytingu á tíðni þunglyndiseinkenna í þessu stóra þýði,“ segir Unnur Anna.

Hún segir fjölda annarra verkefna í vinnslu og nefnir heilsufar ættingja eftir afdrifum sjúklinga, heilsufar heilbrigðisstarfsfólks, áhrif tekjumissis í faraldri á geðheilbrigði og svo áhrif á covid-sjúklingana sjálfa.

„Við erum að skoða þá sértækt áhrif þess að greinast með COVID-19 á langtímaheilsufar og þá sérstaklega geðheilbrigði einstaklinga sem fá sjúkdóminn. Við erum að senda inn vísindagrein núna vegna þess, sem sameinar gögn frá öllum þessum aðilum.“

Þórgnýr Einar Albertsson