Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Andersson fyrst kvenna forsætisráðherra Svíþjóðar

24.11.2021 - 09:38
epa09576566 Sweden's Minister of Finance and party chairman of the Social Democratic Party, Magdalena Andersson, after her meeting with the Swedish speaker of Parliament in Stockholm, Sweden, 11 November 2021.  EPA-EFE/Fredrik Persson  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA
Sænska þingið staðfesti í atkvæðagreiðslu í morgun að Magdalena Andersson verði næsti forsætisráðherra Svíþjóðar. Hún er fyrsta konan sem gegnir þessu embætti í landinu.

117 þingmenn kusu með henni og 57 sátu hjá, sem gera 174 atkvæði. Einnig kusu 174 þingmenn gegn því að hún tæki við embættinu. Hins vegar virkar kerfið þannig að kandídat þarf ekki að tryggja sér meirihluta atkvæða, heldur aðeins tryggja það að það sé ekki meirihluti á móti. Það munaði því aðeins einu atkvæði þingsins að meirihluti væri á móti því að hún yrði kjörin forsætisráðherra.

Andersson, sem er 57 ára gömul, tekur við af Stefan Löfven sem boðaði afsögn sína sem forsætisráðherra eftir að hafa gegnt embættinu frá árinu 2014. Andersson tók einnig við af honum sem formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins í haust.

Næstu þingkosningar eru boðaðar í Svíþjóð haustið 2022 og viðamesta verk Andersson verður að tryggja flokki sínum nægilegt fylgi til að halda völdum.

Með kjöri Andersson hafa konur gegnt embætti forsætisráðherra á öllum Norðurlöndunum. Það munaði raunar aðeins nokkrum vikum að konur væru samtímis forsætisráðherrar allra Norðurlanda, en Jonas Gahr Støre tók við af Ernu Solberg í Noregi í síðasta mánuði.