Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ákaflega flókin staða í sænskum stjórnmálum

24.11.2021 - 22:21
Sweden's Minister of Finance Magdalena Andersson and party chairman of the Social Democratic Party speaks, during a press conference after her meeting with the Swedish speaker of Parliament, in Stockholm, Thursday, Nov. 11, 2021. (Fredrik Persson/TT News Agency via AP)
 Mynd: AP - TT
Innan við átta klukkutímar liðu frá því að sænska þingið samþykkti að Madgalena Andersson yrði næsti forsætisráðherra, þar til hún sagði af sér. Þingið samþykkti fjárlagafrumvarp stjórnarandstöðunnar síðdegis og ríkisstjórnin sprakk þegar Græningjar gengu úr henni. Gunnhildur Lilý Magnúsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö í Svíþjóð, segir staðan sé mjög flókin en að það sé þó ekki útilokað að Andersson verði forsætisráðherra eins flokks stjórnar.

„Þetta er náttúrulega ákaflega flókin staða. Magdalena Andersson náði formlega ekki að verða forsætisráðherra þar sem að hún átti eftir að eiga samtal við kónginn, formlegt samtal en óformlega var hún forsætisráðherra í sjö tíma, áður en hún baðst aflausnar og staðan er mjög flókin,“ segir Gunnhildur Lilý. 

Það er í höndum forseta þingsins að ákveða næstu skref og búist er við að hann gefi út á morgun hver þau verði. Þó er ekki útilokað að Andersson geti stýrt eins flokks stjórn Jafnaðarmanna, að sögn Gunnhildar Lilýar. „Hún nefndi það að fréttamannafundi nú í dag og hún horfði til Danmerkur þannig að þetta er ekkert ómögulegt. En þetta er auðvitað ákaflega flókin staða og engin óskastaða, í fyrsta lagi að ná ekki fjárlögunum í gegn og í öðru lagi að hinn ríkisstjórnarflokkurinn hafi sagt sig frá stjórnarsamstarfinu.“ 

Gunnhildur Lily Magnúsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö.
Gunnhildur Lilý Magnúsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö. Mynd: Aðsend

Jafnaðarmannaflokkurinn og Græningjar mynduðu minnihlutastjórn sem reiddi sig á stuðning Vinstri- og Miðflokksins. Andersson hafði átt í samningaviðræðum við báða stuðningsflokkana um fjárlagafrumvarpið. Gunnhildur Lilý bendir á að þegar samkomulag við Vinstriflokkinn hafi verið í höfn hafi Miðflokkurinn ekki talið sig geta samþykkt það. Ríkisstjórnin væri komin of langt til vinstri, að mati Miðflokksins. 

Fjárlagafrumvarpið sem var samþykkt var lagt fram af Hófsömum hægrimönnum, Svíþjóðar demókrötum og Kristilegum demókrötum. „Og það er svolítið flókin staða þar sem að núverandi ríkisstjórn og Vinstri flokkurinn, lengst til vinstri, vilja ekki eiga í samstarfi við Svíþjóðar demókrata og Miðflokkurinn vill það ekki heldur,“ segir Gunnhildur Lilý. „Þannig að þetta er engin óskastaða fyrir þá flokka sem að ekki eru hluti af þessu borgaralega fjárlagafrumvarpi sem að verður væntanlega það fjárlagafrumvarp sem við munum hafa fram á vor,“ segir hún.  

Annie Lööf, formaður Miðflokksins, lýsti því yfir í færslu á Twitter í kvöld að flokkurinn styðji Andersson áfram til setu í embætti forsætisráðherra.