11 af 19 COVID-sjúklingum á Landspítala óbólusettir

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
11 af þeim 19 sjúklingum sem liggja inni á Landspítala vegna COVID-19 eru óbólusettir. Þetta kemur fram í tölum frá Landspítalanum. Þar sem sjúklingar á gjörgæsludeild spítalans eru það fáir gefur spítalinn ekki upp hvort þeir séu bólusettir eða ekki.

14 af þessum 19 sjúklingum eru í einangrun með virkt smit.

Enginn sjúklingur þurfti á innlögn að halda í gær. Samkvæmt síðustu upplýsingum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri er þar engin inniliggjandi.

COVID-göngudeild Landspítalans notast við sérstakt litakóðunarkerfi þar sem einkennalitlir eru grænir, fólk sem þarf frekara eftirlit er gult og þau sem eru við það að leggjast inn eru merkt rauðu. Engin er í síðastnefnda hópnum en 88 eru merktir gulir.

Á gjörgæsludeild Landspítalans eru nú þrír sjúklingar, þar af eru tveir í öndunarvél. 

Alls greindust 147 með kórónuveirusmit í gær og voru 77 utan sóttkvíar. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV