Viðvaranir vegna norðanhríðar og hvassviðris

23.11.2021 - 08:13
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir á mest öllu landinu vegna norðanhvassviðris í kvöld, nótt og fram á morgun. Það blæs hressilega og snjóar að auki. Því má búast við skafrenningi, lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Þar sem veðrið gengur yfir verður ýmist varasamt ferðaveður eða ekkert ferðaveður.

Veðrið gengur fyrst inn á norðanverða Vestfirði í kvöld og færist þaðan inn á Norðurland, Miðhálendið, Austurland og Suðausturland í nótt. Á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra er spáð fimmtán til 20 metrum á sekúndu, rétt undir stormstyrk. Þegar komið er inn á Norðurland eystra og Austurland að Glettingi er búist við kröftugri vindum, fimmtán til 23 metrum á sekúndu, og þar með stormi víða á þeim slóðum. Mest verður óveðrið á Suðausturlandi og Miðhálendinu, átján til 25 metrar á sekúndu. 

Búast má við snjókomu og skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum allt frá Vestfjörðum norður með landinu og til Austfjarða. Ekki er spáð snjókomu á Suðausturlandi en þar er varað við snörpum vindhviðum við fjöll og verður hvassast austan öræfa. Varasamt ferðaveður er í öllum þessum landshlutum. Á Miðhálendinu verður ekkert ferðaveður.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV