Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Varsla kjörgagna alvarlegasti annmarkinn

23.11.2021 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Undirbúningsnefnd um rannsókn kjörbréfa metur vörslu kjörgagna alvarlegasta ágalla á framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi. Það kemur í hlut kjörbréfnefndar, sem skipuð er sömu þingmönnum og undirbúningsnefndin, að leggja fram tillögur um afgreiðslu kjörbréfa byggðar á mati fyrirliggjandi annmarka rannsóknar undirbúningsnefndarinnar.

Í greinargerðinni sem birt var seinni partinn í dag segir undir kafla um mat á áhrifum annmarka við framkvæmdina að vörslu kjörgagna hafi verið ábótavant. Alvarlegastur hafi verið sá annmarki að kjörgögn voru geymd í opnum kössum í rými sem ekki var læst að öllu leyti eða innsiglað og öryggismyndavélar náðu ekki til. Jafnframt liggur fyrir að fjórir starfsmenn hótelsins höfðu aðgang að því svæði þar sem kjörgögnin voru geymd.

„Þá er ekki ljóst hvenær bakdyrum í talningarsal var læst. Loks liggur fyrir að þegar oddviti yfirkjörstjórnar mætti á talningarsvæðið kl. 11.59 var hann einn þar til næsti kjörstjórnarmaður kom kl. 12.35. Samkvæmt upplýsingum lögreglu var starfsfólk hótelsins á sama tíma á ferðinni inn og út úr fremri sal. Sé þetta allt virt verður að telja að alvarlegur annmarki hafi verið á vörslu kjörgagnanna. Reynir þá á hvort þeir hafi haft áhrif á að við seinni talningu atkvæða urðu umtalsverðar breytingar á atkvæðatölum framboða, sem áhrif höfðu á úthlutun jöfnunarsæta í kjördæminu og á landsvísu.“ segir í greinargerðinni. 

Þá gerir nefndin athugasemdir við viðbrögð yfirkjörstjórnar í aðdraganda endurtalningar um það hvernig yfirkjörstjórn brást við þegar í ljós kom misbrestur í flokkun atkvæða hjá Viðreisn. 

„Hefði kjörstjórnin við þær aðstæður átt að stöðva þá þegar athugun sína á atkvæðum C-lista og halda þeim átta seðlum merktum D-lista og einum seðli merktum B-lista aðgreindum, bóka slíkt í gerðabók og bóka sérstaka ákvörðun um frekari athugun á kjörgögnum. Við þá athugun, þ.m.t. við athugun á umræddum atkvæðaseðlum, var mikilvægt að umboðsmenn framboðslista væru viðstaddir og gætt væri að skilyrðum laga um
kosningar til Alþingis að öðru leyti. Þó svo að telja verði þennan annmarka allnokkurn verður ekki séð að hann hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.“

Þá segir einnig að skort hafi upp á færslu gerðabókar sem ætlað er að tryggja sýnileika og gagnsæi um störf yfirkjörstjórna og að sjá megi að þær hafi verið frjálsar og lýðræðislegar. Að mati nefndarinnar hefur rannsókn hennar orðið umfangsmeiri en þörf hefði verið á ef jafnóðum hefðu verið skráð þau atvik sem vörðuðu framgang talningar atkvæða og ákvarðanir yfirkjörstjórnar þar að lútandi. Verður að telja þennan annmarka umtalsverðan. Hann hefur þó að mati nefndarinnar ekki áhrif á úrslit kosninganna.

Að mati nefndarinnar eru einnig annmarkar á viðveru umboðsmanna framboðslista. 

Á það t.d. við þegar flokkun atkvæða hófst fyrir luktum dyrum, en samkvæmt bókun í gerðabók yfirkjörstjórnar má ráða að umboðsmenn voru fyrst viðstaddir talningu atkvæða eftir að kjörfundi lauk kl. 22.00. Þá verður ekki ráðið af gerðabók yfirkjörstjórnar um fjarveru þeirra umboðsmanna sem ekki voru viðstaddir talninguna og hvort reynt hafi á að tilnefndir væru aðrir í þeirra stað. Loks skorti á að gerð væri grein fyrir viðveru umboðsmanna er yfirkjörstjórn úrskurðaði um gildi ágreiningsseðla, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þrátt fyrir þessa annmarka verður að mati nefndarinnar ekki komist að þeirri niðurstöðu að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.