Telur líklegt að kjörbréfamálið endi hjá MDE

23.11.2021 - 21:56
Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur allar líkur á því að kjörbréfamálinu í Norðvesturkjördæmi verði vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu óháð því hver niðurstaða Alþingis verður.

Kjörbréfanefnd Alþingis skilaði í dag greinargerð um framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi. Nefndin klofnaði í málinu en meirihluti nefndarinnar telur þó rétt að láta seinni talninguna gilda.

Alþingi greiðir atkvæði um málið á fimmtudag. Þrír valkostir verða væntanlega í boði. Að fram fari uppkosning í kjördæminu, að seinni talning verði látin standa eða að atkvæði verði talin á ný.

Katrín segist ekki vera búin að gera upp hug sinn í málinu og ætlar að nýta tímann fram að atkvæðagreiðslu til að fara yfir greinargerð kjörbréfanefndar.

„Ég var bara að sjá þessa skýrslu nefndarinnar í dag eins og aðrir þingmenn. En það hefur legið fyrir hjá okkur í okkar þingflokki að þingmenn eru frjálsir að mynda sér sína eigin skoðun út frá gögnum nefndarinnar. Okkar fulltrúi hefur þar lýst sinni afstöðu en það liggur líka fyrir aðrir munu fara yfir skýrsluna og gera upp hug sinn,“ segir Katrín.

Fimm frambjóðendur kærðu framkvæmd kosninganna til Alþingis. Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi hefur þegar lýst því yfir að hann ætli að vísa málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu ef Alþingi staðfestir niðurstöðu seinni talningar.

„Ég held að það séu allar líkur til þess að óháð því hver niðurstaða þingsins verður hér á fimmtudag þá verður þessu máli vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu. Ég held að þannig er það bara. Það liggur fyrir sama hvernig niðurstaðan verður miðað við hvað maður hefur heyrt frá ólíkum aðilum. Þannig að ég held að við þurfum bara að horfast í augu við það. Komi til uppkosninga, og að hún breyti að einhverju leyti niðurstöðu á þinginu, þá er ekki ólíklegt að einhverjir sömuleiðis fara í það að sækja sinn rétt þar. Ég held að við verðum bara að hafa augun opin fyrir því. Allar þær tillögur sem þarna eru lagðar fram geta kallað á það,“ segir Katrín.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV