Rjúpan fílhraust og vel haldin

23.11.2021 - 10:03
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Holdafar rjúpna er mun betra en í fyrra og með því besta sem mælst hefur frá því farið var að fylgjast með heilsufari rjúpna 2006. Það hefur nokkuð sést af rjúpu, víða á norðan- og vestanverðu landinu en aðeins fer sögum af hreysti norðlensku rjúpunnar.

Þetta sýna mælingar Náttúrufræðistofnunar en samtals voru 207 fuglar sem veiddir voru í haust skoðaðir. Þeir voru skotnir fyrstu tvær vikur mánaðarins, flestir í Þingeyjarsýslum. Ein grænlensk rjúpa var í safninu, ungur karri sem var skotinn á Þverárdal í Öxarfirði 12. nóvember. Sú var ágætlega haldin en var ekki höfð með í úttektinni því þar er þess freistað að meta ástand íslenskra rjúpna eingöngu. 

Rjúpnaveiðitímabilið stendur nú sem hæst en Náttúrufræðistofnun gaf það út fyrir tímabilið að aðeins mætti veiða 20 þúsund fugla. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra ákvað að stytta leyfilegan veiðitíma og nú má aðeins veiða frá hádegi, frá 1. nóvember til 30. Veiðimenn voru hvattir til hóflegra veiða og margir þeirra segja að lítið hafi reynt á veiðigleðina því lítið hafi sést af rjúpu. Það hefur reyndar nokkuð sést af rjúpu, víða á norðan- og vestanverðu landinu en þeir sem til sáu annað hvort ekki með vopnið meðferðis eða sæmilega sáttir með að rjúpan fái að flögra um óáreitt. Ólafur K. Nielsen sér um mælingarnar en honum til aðstoðar Einar Ó. Þorleifsson og Jule Soliche. 

Niðurstöðurnar sýna tölfræðilega marktækan mun á holdafari milli ára en ekki var munur eftir kynjum, en það hefur stundum verið á árum áður. Breytingarnar hafa haldist mjög í hendur milla ára en frávik varð 2018 þegar fullorðnir fuglar skoruðu mjög lágt. Í ár var holdafarið með besta móti, sér í lagi hjá ungfuglum, en bæði eldri fuglar og þeir yngri voru í mun betri holdum en í fyrra.