Reykjavík Dance Festival á tímamótum

Mynd: Rof / Reykjavík Dance Festival

Reykjavík Dance Festival á tímamótum

23.11.2021 - 09:53

Höfundar

Fyrsta hátíð nýrra stjórnenda Reykjavík Dance Festival lofar góðu fyrir framhald hátíðarinnar, segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Síðustu helgi var danshátíð í Reykjavík. Á meðal listamanna á Reykjavík Dance Festival þennan nóvember, má nefna hinn japansk-austurríska Michikazu Matsune, hina portúgölsku Paulu Diogo, norska parið Ingrid og Lasse, auk Lovísu Óskar Gunnarsdóttur og Sveinbjargar Þórhallsdóttur, Í þessum pistli verður rýnt í þrjú verk á hátíðinni og byrjað á sýningunni Panflautur og Pappírsvinna, panflutes and paperwork, sem sýnt var á fyrsta kvöldi hátíðarinnar.

Það voru þau Ingrid Behrer Myhre og Lasse Passage sem stóðu að baki þessari gamansömu danssýningu. Ingrid er danshöfundur og Lasse tónskáld, en þau bæði flytja tónlist og dansa í þessu einfalda en húmoríska verki. Ef það mætti líkja sýningunni við eitthvað þá væri það gangverk, því tvíeykið er eins og sitt hvort tannhjólið sem drífur hvort annað í stuttum, ljóðrænum gjörningum, mig langar nánast að segja sketsum þó það sé ekki alltaf eiginlegt niðurlag í brandaranum. Áhorfendur eru mjög meðvitaðir um skorið því að nótur og dansrútínur eru á blaði fyrir framan flytjendurna, sem ekki eru hræddir við að virka viðvaningslega. Ingrid spilar klunnalega á gítar og Lasse dansar afkáralega, en það er hluti af gamninu að þau skipta með sér verkefnum óháð getu en bæta upp fyrir það með leikgleði. Í raun líður manni frekar eins og maður sé kominn inn á æfingu í stúdíói hjá þessu geðþekka dúói heldur en á eiginlegri danssýningu.

Daginn eftir var hægt að fara í hljóðgönguna Terra Nullius skipulagða af Paulu Diogo. Paula er portúgalskur listamaður en angólsk í móðurætt. Hún hefur verið búsett hér á Íslandi um skeið, og það má segja að í þessari göngu mæti norður suðri, og hafið landi. Það rigndi töluvert meðan ég gekk með mp3-spilarann á mér og hlustaði á sögurnar sem Paula hafði safnað saman. Einu fyrirmælin sem áhorfendur höfðu var að byrja við Tjörnina og síðan ganga frjálslega í átt að hafinu – gömlu höfninni eða Ægisíðu, lagði einn sýningarstjórinn til við mig, en ég endaði á því að ganga um Kvosina og úr gömlu Reykjavík inn í nýju Reykjavík, þegar ég þræddi mig í gegnum vindgöngin frá Hafnartorgi og milli svörtu hótelbygginganna og hálfkláraða Landsbankahússins þar til ég loks endaði með útsýni yfir hafið í öruggu skjóli Hörpunnar.

Mér fannst sú ganga passa ágætlega við efnið, en Terra Nullius fjallar ekki síst um nýlenduvæðingu Reykjavíkur, hvernig fjármagnið ryður burtu fortíðinni og fólkinu, en þó ekki bara það. Nafn verksins er vísun í lagalegt hugtak um land sem enginn gerir tilkall til, eða á viðurkennt tilkall í, og er stundum kallað einskismannsland á íslensku. Dæmi um slíkt er einn skiki milli Súdan og Egyptalands er nefnist Bir Tawil, en hvorugt landanna skilgreinir þessa 2000 ferkílómetra sandauðn sem hluta af sér. Annað dæmi sem Paula nefnir er tunglið.

Hvað er að eiga land? – spyr Paula og kemst að þeirri niðurstöðu að jörðin tilheyri ekki þeim sem sitja sem fastast á henni, heldur þeim sem flakka um hana og tekur þar með afstöðu með þeim sístækkandi hópi mannkyns sem er á faraldsfæti, oft þvert gegn eigin vilja. Í gegnum Paulu heyrum við vangaveltur listamanna, heimspekinga og flóttamanna, en að lokinni sýningu fékk maður í hendurnar bók, eða öllu heldur nokkuð vandaða sýningarskrá með ýmsum hugleiðingum um búsetu og því að eiga fast eða ekki svo fast land undir fótum.

Þriðja verkið sem ég sá á hátíðinni var svo Rof eftir danshöfundinn Sveinbjörgu Þórhallsdóttur. Um er að ræða sóló dansverk þar sem Halla Þórðardóttir fer með aðal- og eina hlutverkið.

Það er margt frískandi við Rof. Ólíkt svo mörgum verkum sem nýjustu kynslóðir í íslenskum dansi hafa skapað á síðastliðnum árum er ekki verið að leitast við að afbyggja dansinn, skreyta dansinn með texta og póstmódernískum vísunum hingað og þangað, eða vinna með jaðarsettum samfélagshópum. Það mætti jafnvel segja að Rof sé pínu djörf sýning með því að voga sér að standa með sinni eigin módernísku fagurfræði.

Fyrsta sem mætir augum áhorfanda er silfraður dansdúkur sem flæðir niður úr loftinu og fram á gólf. Hvorki sviðsmyndin né drunurnar í fossinum eru sérlega frumlegar, en Halla rúllar út úr myrkrinu eins og trjádrumbur, og fer fljótt að dansa eins og vatnadís, í jarðlituðum búningi með fléttumynstri. Júlíanna Lára Steingrímsdóttir, sviðsmynda- og búningahönnuður sýningarinnar hefur áður komið að hönnun fyrir danssýningar, m.a. Black Marrow með Íslenska Dansflokknum og Between us sem sýnt var á Reykjavík Dance Festival, og búningur hennar hentar vel fyrir dans og bætir við án þess þó að draga athygli frá líkama dansarans og hreyfingum hans. Halla flytur afbragðsvel kóreógrafíu Sveinbjargar, enda er hún einn besti dansari sinnar kynslóðar. Sér í lagi fannst mér lokaskor sýningarinnar heppnast vel, en þar minnti hún helst á lifandi strengjabrúðu. Halla er aldrei aftengd og lifir sig inn í dansinn á máta sem dregur áhorfandann með og sogar hann inn í hringiðu verksins.

Mér fannst umfjöllunarefni verksins nokkuð óljóst, þetta er samkvæmt heimasíðu hátíðarinnar afrakstur dansrannsóknarinnar „Öll hreyfing hefur huga í tíma og rúmi“ sem hefur það að markmiði að tengja innra ástand líkamans ákveðnu hugarástandi í tíma við hreyfingu og kóreógrafíu. Svo virðist sem yfirlýst markmið hafi verið að finna aðferð til að fanga tímann í ákveðnu hugarástandi og gefa honum form með gildishlaðinni yfirlýsingu.

Halla náði svo sannarlega að holdgera tímann og segja eitthvað sem ég mun ekki koma í orð, heldur þyrfti að dansa það. Rof er fallegt verk sem skilur mikið eftir sig, þrátt fyrir að tenging milli vatns og tíma sé ekki ýkja frumleg og ljósaskiptingar í verkinu hafi verið óþarflega hraðar. Það kom ekki að sök því kóreógrafían var firnasterk og flutt af innlifun og fagmennsku.

Reykjavík Dance Festival er á ákveðnum tímamótum í ár. Hátíðin er við lok sinna unglingsára, til hennar var stofnað árið 2002 og verður hún tuttugu ára á næsta ári. Fyrsta áratuginn sveiflaðist hátíðin til í stefnu og gæðum, en var ávallt hápunktur ársins fyrir sjálfstæðu senuna, en hún tók stakkaskiptum þegar Ásgerður Gunnarsdóttir og Alexander Roberts urðu stjórnendur hennar 2014. Undir þeirra listrænu stjórn hefur hátíðin fært út kvíarnar, dreift starfsemi sinni yfir árið, skapað ólíklegar og ögrandi tengingar við önnur listform og kryddað þetta með því að flytja inn spennandi og óhefðbundna danslistamenn. Nú í ár hefur annað par, þau Brogan Davison og Pétur Ármannsson tekið við og núna má greina þeirra áherslur í dagskrá hátíðarinnar. Þeirra fyrsta hátíð lofar góðu fyrir framhaldið, hér er ekki um óvænta stefnubreytingu að ræða þar sem siglt er hart í bak, en það verður spennandi að sjá hvert dansfleyið mun stefna á næstu árum og hvar Brogan og Pétur munu sigla í höfn.

Tengdar fréttir

Leiklist

Rauðar kápur og talandi ljón

Leiklist

Engin Sirkús-Njála

Leiklist

Hrá, ljóðræn og býsna mögnuð danssýning

Leiklist

Vel skrifuð tragikómedía sem dregst á langinn