Ráðherrar vísa Hjalteyrarmálinu hver á annan

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Forsætisráðherra segir það hlutverk dómsmálaráðherra að ákveða hvort ráðist verði í rannsókn á Vistheimili á Hjalteyri. Dómsmálaráðherra segir það hins vegar á ábyrgð forsætisráðherra. Barnamálaráðherra vísar málinu frá sér. 

Vistheimili var rekið á Hjalteyri 1972 til 79. Fólk sem dvaldist þar á barnsaldri hefur lýst kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi af hálfu hjónanna sem ráku heimilið. Kallað hefur verið eftir því að stjórnvöld ráðist í rannsókn á heimilinu. Fréttastofa innti ráðherra eftir svörum að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Já, þetta eru auðvitað sláandi frásagnir sem við höfum verið að heyra í fjölmiðlum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra vísar málinu til forsætisráðherra: „Það er á forræði forsætisráðherra. Hún er með þetta eins og önnur,“ segir Áslaug.

Ætlar hún að tjá sig um það?

„Ég býst við því já,“ segir Áslaug. 

Forsætisráðherra er hins vegar á öðru máli: „Nú heyra þessi lög undir dómsmálaráðuneytið og væntanlega verður þetta tekið til skoðunar þar í samráði við sveitarfélögin sem hafa lýst að þau hafi hug á að taka þetta til sérstakrar skoðunar,“ segir Katrín.

Barna- og félagsmálaráðherra segir málið ekki á sínu forræði. Nú hefur umsjónarmaður sanngirnisbóta, bæjarstjórinn á Akureyri, fyrrverandi félagsmálastjóri Akureyrarbæjar kallað eftir að þetta heimili verði rannsakað eins og önnur vistheimili. Hvað finnst þér um það?

„Það er eins og ég segi ekki formlega á mínu borði,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Mun ríkisstjórnin ákveða að það verði einhver rannsókn á vegum ríkisins eða Vistheimilanefndar á þessu?

„Það er þá dómsmálaráðherra sem þarf að meta það þar sem lögin heyra undir hana. Og ég vænti þess að hún muni taka þetta til skoðunar,“ segir Katrín.

Dómsmálaráðherra vísar á forsætisráðherra, félagsmálaráðherra vísar þessu líka frá sér. Hvers vegna vísið þið hvert á annað?

„Ja, samkvæmt forsetaúrskurði á þetta heima hjá dómsmálaráðherra,“ segir Katrín.

„En það þarf eðlilega að gerast í einhverju samráði þessara ráðherra og líka þessara sveitarfélaga sem báru ábyrgð á rekstri heimilisins á sínum tíma. Líkt og Reykjavíkurborg hefur ákveðið að gera varðandi Arnarholt sem eftir samráð okkar við Reykjavíkurborg var ákveðið að Reykjavíkurborg myndi annast þá rannsókn,“ segir Katrín.

Heldur þú að Hörgársveit sé fær um að gera svona rannsókn?

„Ja, eins og ég segi, Hörgársveit hefur ekki leitað til mín. Ég veit ekki hvort Hörgársveit hefur leitað til annarra ráðherra,“ segir Katrín.