Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Öllum steinum þarf að velta við

23.11.2021 - 10:15
Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Öllum steinum þarf að velta við í rannsókn á starfsháttum hrossabænda sem stunda blóðmerabúskap. Þetta segir formaður Félags hrossabænda. Hann segir skiptar skoðanir innan félagsins um hvort slíkur búskapur eigi rétt á sér.

Í myndbandi alþjóðlegra dýraverndunarsamtaka virðist mega sjá íslenska hrossabændur sem stunda blóðmerabúskap fara illa með hrossin. Sveinn Steinarsson formaður Félags hrossabænda sagði í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun að ljóst væri að hrossin í myndbandinu hefðu sætt þvingunum.  blóðtaka væri viðkvæmt ferli sem þyrfti sérstakrar nærgætni við.

„Það voru auðvitað aðfarir og aðbúnaður þarna sem við getum auðvitað ekki sætt okkur við að sé viðhafður í þessu starfi eða hestahaldi yfirleitt. Nú er búið að stunda þennan blóðhryssubúskap í uppundir 40 ár og að umgjörðin sé ekki betur úr garði gerð eftir allan þennan tíma, eins umfangsmikið og starfið er - er algjörlega óviðunandi,“ sagði Sveinn.

Hann sagði mikilvægt að ekki verði allir seldir undir sömu sökina sem séu í þessari starfsemi.  „Hún er vafalaust víða í mjög góðu lagi en það er kannski lægsti samnefnarinn sem við tökum með okkur inn í umræðuna og þar erum við stödd.“

Sveinn sagði að í búskapnum þyrftu  velferð, ásýnd og meðferð lands að endurspeglast. „Því er það kannski enn meira sjokk fyrir okkur, sem trúðum því að eftirlitið væri nægjanlegt, að svona lagað hafi átt sér stað mögulega á síðustu tveimur árum.“

Sveinn segir að þeir sem beri eftirlitsskylduna eigi eftir að svara mörgum spurningum. „Ég geri ráð fyrir í kjölfar þessarar uppákomu verði öllum steinum velt - hvernig þetta megi vera.“

Hann sagði að það væri álitamál innan félags hrossabænda hvort búskapur sem þessi ætti rétt á sér. Sjálfsagt væri að hlusta á skýringar þeirra sem stunda þennan búskap. „En það er ekki bannað samkvæmt lögum að gera þetta og á því byggir starfið.“