Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ólafur Arnalds hlýtur tvær Grammy-tilnefningar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ólafur Arnalds hlýtur tvær Grammy-tilnefningar

23.11.2021 - 18:52

Höfundar

„Ég er ennþá að ná mér niður,“ sagði tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds þegar fréttastofa náði tali af honum skömmu eftir að það kom í ljós að hann væri tilnefndur til tveggja Grammy verðlauna. Hann er annars vegar tilnefndur fyrir samstarfsverkefni sitt við breska raftónlistarmanninn Bonobo og hins vegar útsetningu á lagi sem hann gerði með þýsku tónlistarkonunni Josin.

Lögin eru tilnefnd hvort í sínum flokki. Lagið Loom sem hann gerði með Bonobo er tilnefnt fyrir bestu upptöku á lagi í flokki dans- eða raftónlistar.

Útsetning Ólafs fyrir hljóðfæri og raddir í laginu The Bottom Line sem hann flytur ásamt Josin er svo tilnefnd í flokki útsetninga.

Ólafur segir það vissulega nokkuð óvænt að fá tilnefningu í jafn ólíkum flokkum, en hann geri bara alls konar tónlist. „Mér finnst frábært að fá verðlaun fyrir útsetningar, maður eyðir langmestum tíma í þessi smáatriði,“ segir Ólafur í samtali við fréttastofu.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ólafur hlýtur Grammy-tilnefningar, en hann hefur áður fengið tilnefningar til BAFTA-verðlauna og Emmy. Tilnefningum af þessu tagi fylgir fullt af athygli segir Ólafur. Hann er ekki búinn að panta flug til Los Angeles, þar sem verðlaunahátíðin verður haldin 31. janúar næstkomandi. „Ég er búinn að heyra í Bonobo og hann er strax byrjaður að plana partý, ætli maður skelli sér ekki,“ segir Ólafur, sem vonast til þess að aðeins verði farið að slakna á kórónuveirufaraldrinum þegar nær dregur.