Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Myndi ekki skipta þessari upplifun fyrir neitt!“

Ólafía Þórunn var á 4 höggum undir pari eftir fyrsta hring í Kanada. - Mynd: - / EPA

„Myndi ekki skipta þessari upplifun fyrir neitt!“

23.11.2021 - 18:30
Kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er að hefja æfingar á ný eftir barnsburð. Hún segist alltaf hafa séð sig með börn í golfinu og er þegar farin að leggja drög að næsta keppnistímabili.

 

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur verið einn fremsti kvenkylfingur landsins um árabil og hefur meðal annars verið með keppnisrétt á sterkustu mótaröð heims, LPGA-mótaröðinni. Árið í ár var þó nokkuð frábrugðnara öðrum en hún eignaðist sitt fyrsta barn í júní og er því að venjast nýju hlutverki. 

„Ég er svona að komast af stað í æfingum og líkamsþjálfun og þannig,“ segir Ólafía Þórunn.

 

„Ég er ekki vön að vera á næturvakt eða taka einhvern með mér hvert sem ég fer eða hugsa fyrir honum alltaf. Þetta eru, já, mikil viðbrigði,“ bætir hún við.

 

Ólafía er þó langt frá því að leggja keppniskylfurnar á hilluna og segir að hún sé þegar farin að hugsa að endurkomunni á næsta ári.

„Maður hugsar þetta svolítið núna líka út frá honum, hvað er einfaldast. Ég hugsa að ég muni keppa meira í Evrópu á næsta ári, bara léttara að ferðast með hann. Þetta breytir alveg hlutunum, ég þarf að fá mikla hjálp frá mömmu og pabba og Thomas [Bojanowski, unnusti Ólafíu Þórunnar] er alveg frábær. Maður þarf að púsla smá.“

Ólafía segir að sífellt fleiri afrekskonur tvinni saman keppnisferilinn og fjölskyldulífið. Það geti þó kostað sitt að þurfa að stíga til hliðar og því skipti góður stuðningur öllu máli. 

„Ég er rosalega heppni með styrktaraðila; KPMG, Bláa Lónið, Ecco. Þetta er allt öðruvísi fyrir konur, karlarnir geta eignast börn og haldið áfram að spila en við getum það ekki svo einfaldlega. Ég hef alltaf séð fyrir mér ferilinn minn með fjölskyldu og frá því ég var lítil sögðu mamma og pabbi alltaf: Þú ferð á túrinn og við ferðumst með þér og þú verður með börnin og eitthvað. Þannig að ég hef alltað séð þetta fyrir mér þannig og við erum bara að láta reyna á það.“

„Það er engin fullkomin tímasetning til að gera þetta, þetta verður ekkert léttara þegar ég verð eldri. Ég myndi ekki skipta þessari upplifun fyrir neitt í heiminum,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.