Mun dýrara fyrir marga smáframleiðendur að senda vörur

23.11.2021 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Smáframleiðendur til sveita eru uggandi eftir að Pósturinn stórhækkaði gjaldskrá á pakkasendingum til og frá dreifbýli. Framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla segir hækkun á gjaldskrá Póstsins í dreifbýli koma illa við félagsmenn. Pakki sem áður kostaði þúsund krónur að senda kostar nú 1600 krónur. Það muni um slíkt fyrir jólin þegar senda þurfi marga litla pakka.

Pósturinn breytti gjaldskrá í byrjun nóvember, afnam eitt sendingargjald fyrir allt landið og tók upp svæðaskiptingu. Dýrast er að senda pakka til og frá dreifbýli og nam hækkunin þar allt að 60%. Sendingar innan höfuðborgarsvæðisins lækkuðu í verði. Með þessu eiga gjöld að endurspegla raunkostnað.

Þessi hækkun lendir ekki síst á smáframleiðendum í dreifbýli sem gjarnan þurfa að senda margar litlar endingar. Oddný Anna Björnsdóttir í Gautavík í Berufirði er framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðanda matvæla og rekur einnig gjafavörufyrirtækið Geisla. „Við erum sjálf bæði smáframleiðendur matvæla og gjafavara sem við sendum með Póstinum. Sérstaklega fyrir jólin þegar fólk er að kaupa jólagjafir af okkur. Fyrir okkur að kostnaðurinn hann fari úr þúsund í 1600 krónur skipti náttúrlega gríðarlega miklu máli. Smáframleiðendur matvæla eru staðsettir hringinn í kringum landið og stærsta markaðssvæðið er að höfuðborgarsvæðinu og þaðan fá þeir einnig sín aðföng. Þessi hækkun sem er allt að 60% getur því munað mjög miklu sérstaklega þegar verðmæti sendingarinnar er lítið.“

Smáframleiðendur matvæla gerðu samning við Eimskip/Flytjanda sem Oddný Anna segir að sé algjör bylting en margir noti þó Póstinn líka. Hækkun Póstsins á  sendingum til og frá dreifbýli átti að minnka óeðlilegt samkeppnisforskot ríkisfyrirtækisins á önnur fyrirtæki sem sinna flutningum. „Það er búið að færa mikið af þjónustu frá landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Og þá þætti okkur eðlilegt að ríkið kæmi til móts við fólk sem býr á landsbyggðinni með því að niðurgreiða flutningskostnað hvort sem fyrirtækið er í ríkiseigu eða ekki,“ segir Oddný Anna. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV