Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Loðnan ekki farin að mynda almennilegar torfur

23.11.2021 - 11:44
Loðna
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Loðna hefur enn ekki fundist sem heitið getur. Fram kemur á heimasíðu Síldarvinnslunnar að Bjarni Ólafsson AK hafi í gær orðið var við loðnu austan við Kolbeinseyjarhrygg. Hún hafi hins vegar staðið djúpt og sé ekki farin að mynda almennilegar torfur. Sem stendur sé ekki hægt að veiða hana í nót en beita mætti trolli. Þau séu hins vegar bönnuð á þessum slóðum.

Bjarni Ólafsson AK er nú kominn í land á Akureyri undan brælu eins og Svanur RE og sænska skipið Clipperton. Haft er eftir Þorkeli Péturssyni skipstjóra á Bjarna Ólafs að réttast væri að færa troll-línuna vestar til að hægt yrði að kanna loðnuna. Útlit sé fyrir gott veður um helgina og menn um borð séu bjartsýnir á að veiði fari að hefjast.