Hestamenn á Akureyri ósáttir — „Til háborinnar skammar“

23.11.2021 - 15:36
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Hesthúseigendur í Breiðholti ofan Akureyrar eru afar ósáttir við það hvernig götur hverfisins hafa fengið að drabbast niður og skemmast. Eigandi hesthúss í hverfinu segir göturnar í hverfinu til háborinnar skammar.

Skrifaði bænum opið bréf

Sigfús Ólafur Helgason, hestamaður skrifaðir bænum opið bréf í gær þar sem hann lýsti mikilli óánægju með stöðuna. Bréfið birti hann á miðlinum Akureyri.net.  „Ég er náttúrlega bara mjög ósáttur við hvað Akureyrarbær hefur dregið lappirnar. Ekki bara, núna undanfarna vikur og mánuði heldur undanfarin ár í viðhaldi á götum hérna í hesthúsahverfinu. Hesthúsagöturnar hérna eru að verða ófærar og eru Akureyrarbæ til háborinnar skammar. Ég er búinn að reyna að vera í samtölum við bæinn og fengið ágætis viðtökur og jú alltaf á að fara gera eitthvað. En nú er kominn vetur og það er ekkert að gerast,“ segir Sigfús. 

„Náttúrulega bara ekki neinum bjóðandi“

Hann segir ástandið hafa mikil áhrif á þá sem sækja hverfið. „Þetta er náttúrlega bara ekki keyrandi. Þú ert að stórskemma bílana þína með því fara hérna inn í hverfið og þetta er náttúrulega bara ekki neinum bjóðandi.“ 

Ertu bjartsýnn á að bærinn græi þetta mál?

„Já ég verð nú að hafa trú á það góða í fólki. Ég vil nú meina það að þessi bæjarstjórn sjái að sér. Þetta eru ekki stórar fjárhæðir. Þetta er hefill og hugsanlega einhver efni en fyrst og síðast. Þetta verður að laga.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV