Ástarpungarnir dansa meðan mömmuhjartað slær

Mynd: Robert Wilk / Meanderings

Ástarpungarnir dansa meðan mömmuhjartað slær

23.11.2021 - 18:20

Höfundar

Nú er aldeilis farið að styttast í jólavertíðina þar sem jólalögin hljóma en róum okkur aðeins og kíkjum á ójólalög sem eru enn að koma út í Undiröldu kvöldsins. Bomarz, Doktor Viktor og Daníel Ágúst eru með nýstárlega útgáfu og mömmuhjartað slær hjá Margrét Rúnarsdóttir en önnur með nýtt eru Árstíðir, Benedikt Gylfason, Inspector Spacetime, Son of Henry og Ástarpungarnir.

Bomarz, Doktor Viktor og Daníel Ágúst - Dansarinn

Tónlistarmennirnir Daníel Ágúst, Bomarz og Doctor Victor sendu frá sér á dögunum lagið og myndbandið Dansarinn í tilefni útgáfu glæpasögu Óskars Guðmundssonar - Dansarinn. Flestir hluteigandi gera ráð fyrir að þessi aðferð við útgáfu á hljóðbók, rafbók og innbundinni bók hafi ekki verið farin áður og við verðum bara að trúa því.


Margrét Rúnarsdóttir - Mömmuhjarta

Tónlistarkonan Margrét Rúnarsdóttir hefur sent frá sér lagið Mömmuhjarta þar sem hún spilar á píanó og syngur en Birkir Rafn Gíslason spilar á gítar og bassa, Júlíus Freyr Guðmundsson á trommur, Arnar Guðjónsson á slagverk og strengi, auk þess sem hann hljóðblandar lagið.


Árstíðir - Þarfir

Pendúll er fyrsta platan sem hljómsveitin Árstíðir sendir frá sér sem er eingöngu á íslensku. Hún er að sögn þeirra eldra systkini tvíburaplatnanna Pendúll og Blik, sem fjalla einmitt um árstíðir en Pendúll stendur fyrir vetur, íslenska náttúru, norðurljós og dimmu.


Benedikt Gylfason - Lay Your Weapons Down

Popparinn Benedikt gefur út sína fyrstu þröngskífu, Maybe The Best Has Yet To Come, næsta föstudag og lagið Lay Your Weapons Down er eitt af fjórum lögum hennar.


Inspector Spacetime - Bára

Stuðhljómsveitin Inspector Spacetime hefur sent frá sér stuðlagið Bára sem fjallar, eins og sum önnur lög þeirra, um að fara í partý og dansa til að gleyma.


Son of Henry - Sjúkdómurinn

Garðar Örn Hinriksson er að vinna með listamannsnafnið Son of Henry á plötu sinni Its Just Me sem kom út fyrr í ár. Nú hefur hann sent frá sér lagið Sjúkdómurinn sem fjallar um veikindi þessa Henrys og spilar enn á öll hljóðfæri auk þess að syngja.


Ástarpungarnir - Þorparinn

Ástarpungarnir er Siglfirsk ball hljómsveit sem hóf störf í fyrra, en hafa spilað saman í nokkur ár. Þeir unnu söngkeppni framhaldsskólana árið 2020 og hafa spilað víða síðan þá að eigin sögn og sendu nýlega frá sér útgáfu af Þorparanum eftir Magnús Eiríksson.