„Við erum öll með ólíkar skoðanir á jólunum“

Mynd: RÚV / RÚV

„Við erum öll með ólíkar skoðanir á jólunum“

22.11.2021 - 11:09

Höfundar

Jólaboð eru árleg hefð í lífi flestra Íslendinga og þá koma fjölskyldur saman, borða saltan og reyktan mat og fara yfir það sem borið hefur hæst á liðnu ári. Hver fjölskylda hefur sínar hefðir sem hafa breyst í gegnum árin með heimsviðburðum og tækniframförum. Jólaboðið er nýtt leikrit sem opnar glugga inn í nokkur slík undanfarna áratugi.

Gísli Örn Garðarsson leikari og leikstjóri frumsýndi á föstudag nýtt jólaleikrit sem nefnist Jólaboðið og gerist í húsi í Reykjavík á rúmlega hundrað ára tímabili. Fylgst er með fjölskyldunni koma saman á jólum á ólíkum áratugum og áhorfendur upplifa með henni umrót heillar aldar, til dæmis tvær heimsstyrjaldir, breytingar í sjávarútvegi og hippatímabilið svo eitthvað sé nefnt. Sagan hefst árið 1915 en lýkur á þessu ári. „Þetta er svona fastur liður hjá okkur öllum, við förum í jólaboð og svo er fólkið þar sem við hittum á hverju ári, frændur, frænkur og svoleiðis,“ segir Gísli Örn í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2.

Leikararnir deyja og fæðast inn í nýja kynslóð

Hann ítrekar að miklar breytingar hafi átt sér stað á þeim tíma sem líður í verkinu og þær séu áþreifanlegar. „Rafmagnið er að koma í kringum 1915 sem er bylting í íslensku samfélagi,“ tekur hann sem dæmi. „Leikararnir leika fullt af hlutverkum; þau fæðast og deyja, fæðast aftur sem nýjar kynslóðir og svo förum við í gegnum líf þessarar tilteknu fjölskyldu. Gleði- og sorgarmóment hjá þeim öllum saman.“

Mjög hlýtt á milli þeirra Sölku Sólar

Jólahaldið nú á dögum er sannarlega frábrugðið því sem það var fyrir hundrað árum en Gísli segir að það hafi ekki verið erfitt að skapa stemninguna á ólíkum tímabilum hjá þessari tilteknu fjölskyldu. „Við erum öll með ólíkar skoðanir á jólunum, ólíkar minningar og erum mismunandi í því hvernig hefðirnar eru á heimilum þannig að allir sem koma að þessari sýningu eru með innlegg í það,“ segir Gísli.

Tónlistarkonan Salka Sól syngur titillag sýningarinnar sem ber heitið Æskujól. Þau Gísli hafa nokkrum sinnum unnið saman, meðal annars í sýningunni Í hjarta Hróa hattar þar sem hún sá um tónlistina. „Við áttum mjög gott samstarf og ferðuðumst til Los Angeles og Hong Kong þar sem hún var líka í sýningunni. Það er mjög hlýtt á milli okkar svo ég bað hana að gera tónlistina í þessari sýningu. Þá lá við að hún myndi semja jólalag,“ segir Gísli.

Voru í sinni eigin búbblu á Suðureyri

Það er fleira um að vera hjá Gísla þessa dagana. Sjónvarpsþátturinn Verbúð úr hans smiðju verður frumsýndur 26. desember á RÚV þegar fyrsti þáttur af átta verður sýndur. Gísli lýsir þáttunum sem „períóðu“ sem gerist á árunum 1983 til 1991. „Það verður mjög gaman að setja hana í loftið,“ segir hann.

Hann hefur augljóslega ekki setið auðum höndum í covid-faraldrinum og segir að það hafi í raun aldrei verið eins mikil sjónvarpsframleiðsla á heimsvísu og í heimsfaraldri. „Það er eins og allir hafi hrokkið í gang alls staðar,“ segir hann. „Við skutum að hluta til fyrir vestan á Suðureyri og það var alveg magnað. Þar vorum við eiginlega í okkar eigin búbblu, það var eiginlega enginn nema við og þau sem búa þar sem eru ekki margir svo við mynduðum eiginlega okkar eigin samfélag.“

„Hvernig hefðum við brugðist við ef ég væri bæjarstjóri?“

Hugmyndin er einföld samkvæmt Gísla sem gerði sér í hugarlund ef hann og vinir hans sem leika í þáttunum hefðu verið á sama aldri og nú en hefðu búið úti á landi þegar kvótakerfið varð til. „Hvernig hefðum við brugðist við því ef ég væri bæjarstjóri? Ef Hlynur væri skipstjóri? Ef Nína væri ritari á bæjarskrifstofunni og Gói væri vélstjóri og Unnur væri að vinna á leikskólanum í þorpinu?“ tekur hann sem dæmi. „Það kemur þessi hugmynd um kvótakerfið, hvernig við hefðum unnið úr því og hefði það nýst okkur eða ekki. Þetta er lítil dæmisaga þegar þú talar um sjávarútgerð eins og kvótakerfið.“ Hann segir að fáir átti sig raunverulega á því hvað gerðist þegar sjávaraflinn var einkavæddur. Ljósi er varpað á þá atburði í þáttunum. „Það blandast allt inn í þennan litríka og skemmtilega tíma sem er mjög nostalgískur fyrir mér sem er tíu, tólf, fjórtán ára á þessu tímabili. Svo þetta er svona coming of age eins og maður segir á lélegri íslensku,“ segir hann. „Það er gaman að fara inn í þennan tíma þegar maður var svona einhvern veginn krakki saklaus, en það er að verða til mjög stórar breytur í samfélaginu.“

Rætt var við Gísla Örn Garðarsson í Morgunútvarpinu á Rás 2.