Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Óbólusettum víða meinaður aðgangur á Grænlandi

Mynd með færslu
 Mynd: Oliver Schauf - Wikipedia
Hertar samkomutakmarkanir tóku í dag gildi í Nuuk höfuðstað Grænlands og í bænum Upernavik á norðvesturströndinni ásamt nærliggjandi svæðum. Óbólusettum verður bannað að heimsækja fjölmenna staði, allt frá veitingastöðum til íþróttahalla.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá landsstjórn Grænlands. Aðgöngubannið nær einnig til snyrtistofa, nuddstofa og þesskonar starfsemi. Eins er óbólusettum bannað að ferðast frá framangreindum stöðum nema í undantekningartilfellum.

Grímuskylda er nánast alls staðar. Í Nuuk er aðeins heimilað að 20 komi saman og er skyldugt að hafa þegið bólusetningu að því er fram kemur á vef KNR. Reglunum er ætlað að gilda til 5. desember.

Bannið nær einnig til barna á aldrinum tveggja til tólf ára nema þau hafi smitast af COVID-19 og geti sýnt minnst tveggja vikna og mest tólf vikna gamalt jákvætt PCR-próf.

Óbólusettum er því óheimilað að láta sjá sig nánast hvarvetna nema í matvöruverslunum, pósthúsum, flugstöðvum og biðstöðvum almenningssamgangna.