Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hópsmit á Dalvík og í Grundarfirði hefur víðtæk áhrif

22.11.2021 - 13:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hópsmit sem komið hafa upp á Dalvík og í Grundarfirði síðustu daga hafa mikil áhrif á samfélagið. Skólar, íþróttamannvirki og sundlaugar eru lokuð á báðum stöðum. Von er á miklum fjölda í sýnatöku á Dalvík í dag.

Víðtæk skimun á Dalvík í dag

Kennsla fellur niður í Dalvíkurskóla í dag og á morgun vegna hópsýkingar sem kom upp í bænum fyrir helgi. Víðtæk skimun fer fram á Dalvík í dag, en mannskapur kemur frá Akureyri til þess að taka sýni og hefur björgunarsveitarfólk sér til aðstoðar. Auk Dalvíkurskóla er Tónlistarskóli bæjarins lokaður og íþróttamiðstöðin sömuleiðis. 25 smit hafa greinst á svæðinu undanfarna daga og eru tæplega 200 í sóttkví.

Fleiri munu greinast í dag 

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar býst við að fleiri greinist á svæðinu í dag. „Það er alveg vitað að mál að það eru einhverjir fleiri veikir sem hafa verið heima með ung börn þannig að það á eitthvað eftir að bætast við tölurnar þegar líður á daginn og í fyrramálið. “

Ertu vongóð um að þið náið utan um þetta núna í þessari viku?

„Já ég er mjög vongóð um það, ég veit það að fólk hefur verið að passa sig verulega mikið með allan samgang þannig að það kemur mér á óvart ef það verður mikil aukning á smitum. Nema þá bara fólk úr sóttkví.“

Svipuð staða í Grundarfirði

Í Grundarfirði er svipaða sögu að segja. Þar hafa 11 smit greinst og rúmlega 60 manns eru í sóttkví. Þar hefur leikskólanum, grunnskólanum og framhaldsskólanum verið lokað auk þess sem íþrótta- og tómstundastarf fellur niður.