„Ég stóð bara á öskrinu og sagði: Nei!“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég stóð bara á öskrinu og sagði: Nei!“

22.11.2021 - 13:55

Höfundar

Sigurrós Ósk Karlsdóttir var lögð í mikið einelti í grunnskóla vegna fæðingargalla. Þegar hún var fimm ára buðust læknar til að taka af henni vanskapaðar hendur og setja á hana gervihendur í staðinn en það tók litla hnátan ekki í mál. Í dag er hún þakklát stelpunni sem stóð með sjálfri sér og sínum líkama.

Sem barn glímdi Sigurrós Ósk Karlsdóttir við einelti sem hún varð fyrir vegna fæðingargalla. Hún er með vanskapaðar hendur sem hún fæddist mögulega með vegna svefnlyfjaneyslu móðurinnar á meðgöngunni. Þegar Sigurrós var barn bauðst henni að láta taka vansköpuðu hendurnar af og fá gervihendur í staðinn en hún neitaði því staðfastlega og er sátt í eigin skinni í dag enda getur hún gert allt það sama og allir aðrir.

Þröng á þingi á æskuheimilinu

Sigurrós er fædd árið 1965 og uppalin á Akureyri, þar sem hún bjó með foreldrum sínum og fjórum bræðrum. „Við bjuggum í blokkaríbúð sem var fjögur herbergi, ég var í herbergi með einum bróður mínum, svo voru þrír í öðru herbergi og svo voru foreldrar mínir,“ rifjar hún upp. „Þetta var svolítið þröngt.“

Tók svefnlyf á meðgöngu

Þegar hún fæddist kom í ljós að hún væri ekki eins og flestir aðrir. „Ástæðan fyrir minni fötlun er að talið er að móðir mín hafi tekið svefnlyf á meðgöngu, en það er ekki hundrað prósent garanterað,“ útskýrir Sigurrós. „En ég fór að kanna málið á sínum tíma og fékk ekki almennileg svör svo ég ákvað bara að láta kyrrt liggja. Var búin að sætta mig við að vera bara eins og ég er. Ég hefði ekkert haft það betra.“

„Ég get allt eins og allir aðrir“

Fyrstu fimm árin eftir að hún fæddist þurfti móðir hennar reglulega að fara með hana til Reykjavíkur til sérfræðinga sem vildu fá að fylgjast með framförum og hvort það myndi henta henni að vera með þessar hendur. Svo var tekin ákvörðun sem Sigurrós var alls ekki sátt við. „Þeir vildu bara taka þessar hendur og setja gervihendur. En ég hélt nú ekki,“ rifjar hún upp. „Ég stóð  bara á öskrinu og sagði bara: Nei.“ Og mótmælunum má þakka að hún hélt höndunum. „Þeir sögðu bara: ókei, þá fær hún að átta sig á því sjálf þegar hún verður eldri hvort hún vilji fá aðrar hendur þá. En ég sé ekki eftir því, ég get allt eins og allir aðrir og er bara sátt við það.“

Flutti til móðursystur sinnar

Þegar hún var um tíu ára gömul tók uppeldismóðir Sigurrósar, móðursystir hennar, hana í fóstur ásamt ömmu hennar. Eftir það bjó hún hjá þeim í einbýlishúsi í fimmtán ár en var alltaf í samskiptum við foreldra sína og systkini. „Fór náttúrulega alltaf til þeirra á jólunum og var á báðum stöðum raunverulega.“

Lögð í einelti alla sína skólagöngu

Móðir hennar átti við áfengisvandamál að stríða og Sigurrós segir að eflaust hafi hún ekki treyst sér til að hugsa um sig þar sem hún þurfti meiri hjálp en bræðurnir á skólaárunum, sem voru ekki auðveld fyrir Sigurrós. „Ég var náttúrulega lögð í einelti alla mína skólagöngu og ætlaði að fá mér frí í eitt ár en halda svo áfram. En þau hafa orðið ansi mörg, ég hef ekki farið í skóla síðan,“ segir hún.

Rætt var við Sigurrós Ósk Karlsdóttur í Dagur í lífi á RÚV. Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Varð óglatt við tilhugsunina um að fara aftur í skólann

Mannlíf

Enginn átta ára drengur áttar sig á hvað krabbamein er