Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ástralir undirrita samning um kafbátakaup

22.11.2021 - 02:17
epa06370361 Australian Immigration Minister Peter Dutton speaks during a press conference at Parliament House in Canberra, Australian Capital Territory, Australia, 06 December 2017.  EPA-EFE/LUKAS COCH  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA
Ríkisstjórn Ástralíu hóf í dag opinberlega vegferð í átt að því að búa sjóherinn kjarnorkuknúnum kafbátum. Verkefnið tengist varnarsamkomulagi landsins við Bretland og Bandaríkin.

Peter Dutton varnarmálaráðherra Ástralíu undirritaði samkomulag þessa efnis við Bandaríkin ásamt bandarískum og áströlskum sendifulltrúum.

Þetta er fyrsti samningurinn sem undirritaður er eftir að ríkin þrjú tóku saman höndum í september með það í huga að bregðast við aukinni spennu á Kyrrahafi.

Það samkomulag, sem gengur undir heitinu AUKUS, hefur ergt Kínastjórn mjög sem segir það óábyrga ögrun við stöðugleika á svæðinu.

Ástralir eignast á næstu árum átta fullkomna, langdræga kjarnorkukafbáta en áður höfðu þeir gert samning við Frakka um kaup á nokkrum dísilknúnum bátum.

Riftun hans reitti franska stjórnmálamenn mjög til reiði og varð til þess að sendiherrar voru kallaðir heim frá Canberra og Washington.