Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stranglega bannað að draga undirmenn á tálar

Mynd:  / 

Stranglega bannað að draga undirmenn á tálar

21.11.2021 - 22:10

Höfundar

Það hitnaði rækilega í kolunum fyrir Andra Ólafsson í nýjasta þætti Ófærðar 3. Í hlaðvarpinu Með Ófærð á heilanum rýndu tveir fyrrverandi lögreglustjórar á höfuðborgarsvæðinu, þau Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og Stefán Eiríksson útvarpsstjóri, í nýjasta þáttinn og gáfu mikilvæga innsýn í störf lögreglunnar.

Athugið - færslan inniheldur spilliefni úr sjötta þætti Ófærðar 3. 

Nýr yfirmaður rannsóknarinnar í litla sjávarplássinu beið ekki boðanna í sjötta þætti Ófærðar og dró Andra Ólafsson, lögreglumanninn sem þjóðin heldur með, á tálar á hótelinu. Þetta þykir Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra, ansi ámælisverð hegðun af hendi persónunnar þar sem ljóst sé að valdaójafnvægi ríki í sambandi þeirra. Ástarsambandið er þó kærkomin viðbót fyrir trygga áhorfendur Ófærðar þar sem lítið hefur reynt á rómantísku taugina í persónu Andra hingað til. 

Lögregluþríeykið Andri, Trausti og Hinrika, halda klaufaganginum áfram í þessum þætti þegar þau láta danska mótorhjólaklíkuforingjann gabba sig upp úr skónum í viðleitni hans til að finna uppljóstrara innan sinna raða. Upp kemst um Sverri, sem hafði verið uppljóstrari lögreglunnar um langa hríð, en áhorfendur eru skildir eftir í miklum vafa um örlög hans. 

Varðandi nýjar upplýsingar í þættinum má helst nefna sterka innkomu föður hins myrta. Persóna hans hefur vakið litla athygli í þáttunum hingað til en það er alveg ljóst, af þeim manni sem blasir við áhorfendum í þættinum að þessu sinni, að hann gæti borið ábyrgð á hvarfi Línu - stúlkunni sem allt hverfist í raun um. Ef það reynist rétt má með sanni segja að samtal hans við Andra Ólafsson í upphafi þáttaraðarinnar, þar sem hann varpar sökinni á andláti Ívars yfir á Andra, hafi verið ein sú ósvífnasta flækja brotamanns sem sést hefur í spennuþáttaröð um langa hríð. 

Með Ófærð á heilanum er hlaðvarpsþáttaröð í umsjón Snærósar Sindradóttur þar sem farið er ofan í saumana á því hvað kemur fram í hverjum þætti Ófærðar og hvaða kenningar eru uppi hverju sinni. Þættina má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum en einnig í spilara RÚV, strax á eftir frumsýningu Ófærðar hvert sunnudagskvöld á RÚV. 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Baby Lars ekki allur þar sem hann er séður

Sjónvarp

Leiðinlegt fyrir stelpurnar að hangsa með fúlum Dönum

Sjónvarp

Dulin hómófóbía áhorfenda mögulega að villa fyrir þeim