Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stökk út í næturmyrkrið fyrir 50 árum og hvarf

Mynd með færslu
Boeing 727 vél Trans World Airlines, sömu gerðar og rænt var nærri Aþenu 1985 Mynd: F. Götting - Wikipedia

Stökk út í næturmyrkrið fyrir 50 árum og hvarf

21.11.2021 - 03:52

Höfundar

Að kvöldi 24. nóvember 1971 keypti tilkomulítill og harla venjulegur maður sér flugmiða aðra leiðina frá Portland til Seattle í Bandaríkjunum. Maðurinn sagðist heita Dan Cooper en örfáum klukkustundum síðar hvarf hann og hefur ekki sést síðan.

Þótt fimmtíu ár séu liðin heillar þessi saga Bandaríkjamenn og sennilega alla þá aðra sem þekkja hana.

Sagan af D. B. Cooper er eina óupplýsta flugránið í sögu landsins. Flugfélagið var Northwest Orient Airlines, flug 305 og farkosturinn Boeing 727-51 þota líkt og sjá má á myndinni sem fylgir umfjölluninni. 

Alríkislögreglan lýsir honum sem hæglátum manni á fimmtugsaldri íklæddum  jakkafötum, í hvítri skyrtu með svart bindi. Hann pantaði sér viskí og sóda sem hann drakk rólega meðan flugtaks var beðið. Það var Þakkargjörðarhátíð í Bandaríkjunum.

Sprengja í handtöskunni

Skömmu eftir flugtak rétti Cooper flugfreyju lítinn miða sem hún ekki leit á. Þá hallaði hann sér að henni og sagði henni lágum rómi að henni væri best að líta á miðann. Hann hefði sprengju meðferðis. 

Hann sýndi flugfreyjunni víraflækju mikla í handtöskunni sinni og hún skrifaði í flaustri niður kröfur flugræningjans.

Hann krafðist þess að fá fjórar fallhlífar og 200 þúsund Bandaríkjadali í peningum. Það jafngildir 1,3 milljónum í dag eða ríflega 170 milljónum króna. 

Þegar þotan lenti í Seattle hleypti hann farþegunum 36 út í skiptum fyrir peninga og fallhlífar sem alríkislögreglumenn báru um borð. Áhöfninni sagðist Cooper ætla að halda sem tryggingu, fyrirskipaði flugtak að nýju. Stefnan var tekin í átt að Mexíkó-borg og flogið lágt. 

Flugræninginn stökk út í ískalda nóttina

Einhvers staðar á milli Seattle og Reno í Nevada stökk Cooper út um aftari dyr þotunnar og hvarf út í nístíngskalt náttmyrkrið. Hann hefur ekki sést síðan þrátt fyrir ítarlega leit. 

Vikum saman var Coopers leitað í skógum í norðvesturhluta Bandaríkjanna en án árangurs. Fimm árum síðar höfðu rannsakendur yfirheyrt 800 grunaða en allt kom fyrir ekki.

Stóra spurningin var hvort hann lifði stökkið af og hafi hann gert það var spurt hve lengi hann gæti lifað af léttklæddur í nöprum óbyggðunum. Ekkert svar hefur enn fengist við þessum spurningum. 

Fjölmargar kenningar hafa farið á flug um hver Cooper raunverulega var, sumar býsna langsóttar. Tugir hafa á dánarbeði sagst vera þessi dularfulli flugræningi. 

Alríkislögreglan lýsti rannsókn málsins lokið árið 2016 með þeim orðum að þrátt fyrir örfá mistök hafi rannsóknin  gengið vel. Verstu mistökin voru að reikna flugleið þotunnar ranglega sem þýðir að Cooper kann að hafa komið til jarðar víðsfjarri helstu leitarstöðunum.

Áhugafólk um D.B. Cooper getur keypt margskonar varning tengdan nafni hans á borð við kaffibolla, boli og sokka. Einu sinni var meira að segja til strípiklúbbur í Texas sem bar nafnið D.B. Cooper. Hann er nú horfinn rétt eins og Cooper sjálfur.