Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fordæmalausar launahækkanir og ekki á það bætandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Launahækkanir á Íslandi á liðnum árum eru án fordæma á Vesturlöndum. Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Laun hafa hækkað um 20% hér á landi á síðustu þremur árum, og segir Guðrún að slík hækkun geti ekki gengið upp án hækkunar vaxta og aukinnar verðbólgu – sem nú eru komin fram.

Guðrún var meðal gesta Silfursins á RÚV í morgun, ásamt Kristrúnu Frostadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og þingmanni Framsóknarflokksins, og Sigmari Guðmundssyni, þingmanni Viðreisnar. Tekist var á um efnahagsmál og orsakir hækkana á fasteignaverði í þættinum.

Mikil umræða hefur verið um kjarasamningsbundnar launahækkanir í vikunni. Á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans í vikunni, þar sem stýrivextir voru hækkaðir um 0,5 prósentustig, var Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra tíðrætt um boðaðar launahækkanir – sem samið var um í lífskjarasamningum, áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Engin innistæða væri fyrir þeim, og þær væru vísar til að leiða til aukinnar verðbólgu og hærri vaxta. 

Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir því hækkununum verði slegið á frest, en forkólfar verkalýðshreyfingarinnar ekki tekið annað í mál en að samningar standi.

Egill Helgason þáttastjórnandi spurði Guðrúnu hvort hún teldi að „stöðva“ þyrfti launahækkanirnar með einhverjum hætti. Hún vildi þó ekki ganga svo langt.

„Ég er manneskja orða minna. Það voru gerðir kjarasamningar og það er mikilvægt að staðið verði við þá,“ sagði hún. Hún vilji þó að aðilar vinnumarkaðarins, atvinnurekendur og fulltrúar verkalýðsfélaga, setjist niður og meti hvort hækkanir yrðu farsælar til langframa.

Húsnæðisverð rót vandans

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, benti á að á síðustu 25 árum hefði húsnæðisverð þó hækkað 25% umfram ráðstöfunartekjur. Og það sem meira er, fyrir fólk undir fertugu er þessi tala 40%, þar sem sá hópur hefur setið eftir í þróun ráðstöfunartekna. Umræðu um launahækkanir þyrfti að skoða í því ljósi.

Kristrún sagði stjórnvöld bera mikla ábyrgð á þeirri stöðu sem er á húsnæðismarkaði, en fasteignaverð á landsvísu hefur hækkað um 17% á liðnu ári.

„Við erum alltaf að ræða um einkenni sjúkdómsins í staðinn fyrir sjúkdóminn sjálfan, sem er óstöðugleiki á fasteignamarkaði,“ sagði Kristrún og sagði hann vera pólitíska ákvörðun og afleiðingu aðgerðaleysis stjórnvalda.

Kristrún gagnrýndi að ríkið hefði ekki með kröftuglegri hætti stigið inn á húsnæðismarkað og tekið fram fyrir hendur á bönkunum.

„Það er mjög sérstakt umhverfi [á lánamarkaði] þar sem allir hvatar eru að láta ungt fólk taka tugmilljón króna [húsnæðis]lán. En lítil fyrirtæki eiga helst að reka sig á eigin fé,“ sagði Kristrún. Þá kallar hún eftir að ríkið setji sér húsnæðisstefnu til langs tíma, með sambærilegum hætti og samgönguáætlun.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ríkisstjórnin skáki í skjóli talningarklúðurs

Umræðan barst að talningarmálinu í Norðvesturkjördæmi. Nýtt þing kemur saman í fyrsta sinn á þriðjudag, nú þegar tveir mánuðir eru liðnir frá kosningum.

Á fimmtudag stendur til að greiða atkvæði um það hvort kjörbréf verða samþykkt í samræmi við seinni talningu í kjördæminu eða hvort boðað verði til uppkosningar.

Sigmar Guðmundsson, nýkjörinn þingmaður Viðreisnar, sagði að öllum væri ljóst að illa gengi hjá ríkisstjórnarflokkunum að ná saman. Flokkarnir nýttu sér til hins ítrasta vandræðaganginn í Norðvesturkjördæmi og þingstörfin liðu fyrir það, á sama tíma og grafalvarlegt ástand væri í heilbrigðismálum.

„Við erum að ræða um grafalvarlegt ástand, en það situr ekkert þing. Við vitum ekkert hver stefna ríkisstjórnarinnar er. Hvaða rugl er þetta? Af hverju situr ekkert þing?“