Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Erfitt að gera grín þegar manni líður vel

Mynd: Þjóðleikhúsið / RÚV

Erfitt að gera grín þegar manni líður vel

21.11.2021 - 11:30

Höfundar

„Maður er með nýtt sjónarhorn á alla hluti þegar maður er búinn að vera einn í hausnum á sér allan liðlangan sólarhringinn í ár,“ segir Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, grínisti í uppistandshópnum Fyndnustu mínar. Komin er glæný sýning með þeim stöllum á fjalirnar, Náttfatapartý, en þær hafa þurft að endurvinna allt sitt efni.

Í gærkvöldi frumsýndi gamanhópurinn Fyndnustu mínar glænýtt uppistand undir yfirskriftinni Náttfatapartý í Þjóðleikhúskjallaranum. Hópinn skipa þær Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, Lóa Björk Björnsdóttir, Rebecca Scott Lord og Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir.

Nú á dögunum kíktu þær í spjall til Önnu Marsibil Clausen í Lestinni á Rás 1 til að ræða hvernig síðasta eina og hálfa árið hefur haft áhrif á nálgun þeirra á grín og hvaðan þær sækja innblástur. 

Allt frá þessum tíma farið í ruslið

„Ég get ekki sagt að við höfum verið tilbúnar með sýninguna,“ segir Lóa en þær stöllur ætluðu að sýna Náttfatapartý fyrir tæpu ári síðan, á hátindi fjórðu bylgju. „Við vorum kannski bara með svona þrjá brandara,“ segir hún, en mikil óvissa hafi verið í gangi hvort þær næðu að sýna. „En ég get sagt að það efni sem ég var að vinna á þessum tíma er allt farið í ruslið,“ bætir Hekla við.  

„Maður er með nýtt sjónarhorn á alla hluti þegar maður er búinn að vera einn í hausnum á sér allan liðlangan sólarhringinn í ár, það er rosalega lítið sem verður á vegi manns því við gátum ekki farið út mjög lengi,“ segir Hekla, efnið sé ekki endilega hætt að vera fyndið en forsendurnar séu aðrar. Þá segist Salvör vera með mun fleiri mömmubrandara en hún ætlaði sér upphaflega. „Ég er búin að liggja inni á mömmugrúppunum sem er endalaus uppspretta gríns.“  

„Mér líður eins og síðustu tvö ár hafi liðið eins og fimm ár. Ég opna gömul uppistönd og les yfir brandarana mína og hugsa: Já þetta er fyndið, en var ég átján ára þegar ég skrifaði þetta?“ spyr Lóa, henni líði eins og það séu tíu ár frá því að líf hennar hafi verið svona. Þær segjast þó ekki vera með covid-grín, það sé búið að segja allt um það. „En veruleikinn á bakvið brandarana er að það er búið að vera covid.“ 

Meingallað fólk langfyndnast 

Þær vinkonur segjast hafa sótt mikið í sjónvarpsefni til þess að móta eigin húmor og rödd í gegnum tíðina. „Ég elska sjónvarpsþætti, þeir eru klárlega þar sem maður finnur húmorinn sinn,“ segir Lóa því þar sé mun meiri fjölbreytni að finna heldur en að fara í leikhús og ekki hafi verið mikið um uppistand á uppvaxtarárunum. Í menntaskóla hafi hún uppgötvað grínþættina 30 Rock með Tinu Fey og dolfallið fyrir þeim. „Ég var að skrópa í skóla til að vera heima að horfa á þá,“ segir hún. „Þarna hugsaði ég: Vá hvað þetta er ógeðslega fyndið og ógeðslega gaman. Mig langar að gera þetta þegar ég verð stór.“  

Salvör segir að  breskt grín hafi haft hvað mest áhrif á hana. Hennar mótandi efni voru þá iðulega þættir um brostið og meingallað fólk. Hún nefnir þættina Smack the Pony, Absolutely Fabulous og Black Books, en þar er fólk í erfiðum aðstæðum og oft vont við hvert annað. „Það er langfyndnast,“ segja þær Lóa og Salvör. „Við höfum talað um að það er erfitt að gera grín þegar manni líður vel,“ segir Salvör. „Maður er örugglega fyndnastur þegar maður fer að kroppa í eitthvað,“ bætir Lóa við þegar maður sé í góðu skapi sé ekki þörf á því að kafa inn á við. Þær segjast gera grín til þess að hressa aðra við en líka sig sjálfar, það sé fín sjálfsbjörg.  

Rebecca, sem kemur frá Bandaríkjunum, segist hafa átt erfitt til uppdráttar og hennar leið til þess að takast á við það hafi verið að grínast og vera fyndin. Hún hafi ekki haft mikið skemmtiefni til þess að horfa á sem unglingur nema þá SNL Best of Will Ferrell. Hinar bæta þó við að það eitt að hafa alist upp í Bandaríkjunum sé í sjálfu sér sprenghlægilegt.  

„Ég var einu sinni nörd breytti lífi mínu,“ segir Hekla, hún gat ekki trúað að maðurinn gæti staðið uppi á sviði í gallabuxum og svörtum bol og haldið uppi heilli sýningu og verið ógeðslega fyndinn allan tímann. „Ég held líka að þegar þú ert með bullandi ógreint ADHD og ert alltaf að greina allt í kringum þig og kannski hlusta og taka eftir meira en að taka þátt, þá safnast í sarpinn.“  

Þarft að afhjúpa þig en halda í sjálfsöryggið 

En uppistand er gríðarlega viðkvæmt form því þó svo að þú sért með gott grín og sért fyndinn þá sé alltaf hætta á því að brandararnir lendi ekki. „Sama hversu góður uppistandari þú ert þá geturðu alltaf bombað og verið lélegur,“ segir Lóa. „Þú þarft að fá fólk með þér í lið og vera til í að hlæja, því það er svo þunn lína á milli þess að gera grín og vera gera lítið úr sjálfum sér.“ Hún segir að ekki megi lenda á stað þar sem fólk fer að vorkenna manni en maður megi ekki virka hrokafullur heldur. „Þú þarft að afhjúpa þig en samt halda í sjálfsöryggið.“  

„Þetta er svo viðkvæmt, hættan og hræðslan við að þú missir salinn,“ segir Hekla. Að hennar mati byrji allt uppistand vel því salurinn heldur með þér. „En svo geturðu sagt eitthvað sem stuðar einhvern og þá rofna þessi tengsl sem þú þarft að hafa. Þú þarft að fá þessa orku frá salnum til þess að halda dampi.“ Þá segir Hekla að oft fari það eftir aðstæðum hvort uppistand gangi vel eða ekki, það geti munað hvort fólk sé að bíða eftir að fá að borða eða sé á leið eitthvert annað.  

„Getið þið ímyndað ykkur uppsöfnuðu orkuna í okkur?“ spyrja þær stöllur, en Náttfatapartý er komin í sýningar og hægt er að nálgast miða hér.  

Rætt var við grínhópinn Fyndnustu mínar í Lestinni á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.  

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Vill vera ótrúlega heit og svolítið leiðinleg

Bókmenntir

Erótískar sögur af Kókómjólkur-Klóa og Bill Gates