Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Uggur vegna fjölgunar andláta fólks með geðrænan vanda

epa05098330 Striking junior doctors working for the National Health Service (NHS) in England man a picket line outside St Thomas Hospital in Lambeth, London, England, 12 January 2016. Junior doctors are holding a 24 hour strike calling for more pay and
 Mynd: EPA
Óvenjumargt fólk með geðræn veikindi og vanda lést á Bretlandseyjum fyrstu tólf mánuðina sem kórónuveirufaraldurinn geisaði. Það á einkum við fólk sem vistað er á stofnunum af ótta við að það valdi sér eða öðrum skaða.

Þetta kemur fram í greiningu nefndar sem hefur eftirlit með gæðamálum hjúkrunar á þarlendum sjúkrahúsum en fækkun starfsfólks á geðdeildum vekur ugg.

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins um málið kemur fram að frá því að faraldurinn skall á og fram í mars 2021 hafi 490 með geðræna kvilla látist, þar af 324 af ástæðum ótengdum COVID-19. Meðaltal áranna 2012 til 2019 er 273.

Rakin eru dæmi sem sýna bein tengsl milli fáliðaðra sjúkradeilda og andláta sjúklinga.

Jeremy Hunt fyrrverandi heilbrigðisráðherra segir skort á læknum og hjúkrunarfólki ógna öllum þáttum breska heilbrigðiskerfisins (NHS) og lýsir áhyggjum sínum vegna framangreindra dauðsfalla.

Hunt segir að þegar þurfi að bregðast við varðandi menntun heilbrigðisstarfsfólks svo tryggja megi nægilegan fjölda þess á komandi árum og áratugum. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV