Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fyrirskipa ferðatakmarkanir og eldsneytisskömmtun

20.11.2021 - 03:28
epa09587741 A handout photo made available by the Ministry of Transportation and Infrastructure showing repair operations on the Malahat Highway on Vancouver Island following flooding caused by days of rain near Victoria, British Columbia, Canada, 16 November 2021 (issued 17 November 2021). One person in reported dead and flooding has caused damage to roads and bridges in western Canada near Vancouver.  EPA-EFE/MINISTRY OF TRANSPORTATION AND INFRASTRUCTURE  / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - MINISTRY OF TRANSPORTATION AND I
Yfirvöld í vesturhluta Kanada fyrirskipuðu ferðatakmarkanir í gær og tóku upp skömmtun á eldsneyti. Fjögurra er enn leitað eftir hamfarirnar sem skóku samfélag Bresku Kólumbíu fyrr í vikunni.

Vandkvæðum er bundið að flytja vörur til Bresku Kólumbíu eftir að skriðuföll og flóð í kjölfar úrhellisrigningar ollu tjóni á samgönguleiðum. Einnig þurfti að loka fyrir leiðslu sem flytur olíu frá Alberta til Bresku Kólumbíu. 

„Við förum þess á leit við almenning að hann dragi úr eldsneytisnotkun og ferðalögum. Það er gert með vísan í neyðarreglur ríkisins,“ segir Mike Farnworth ráðherra almannaöryggis í fylkinu. Áríðandi sé að nægt eldsneyti sé til svo hægt sé að veita fólki þá þjónustu sem þarf. 

Enginn má kaupa meira en 30 lítra af eldsneyti í senn auk þess sem almenningur er varaður við að leggja leið sína um þau svæði sem verst urðu úti í hamförunum. 

„Þessar aðgerðir tryggja allan flutning og þar með að vörur berist til fólks, auk þess sem öruggt verður að allir komist þangað sem þeir ætla sér,“ segir Farnsworth.  

Fjögurra er enn leitað í Pemberton-héraði en björgunarsveitir fundu lík einnar konu þar um slóðir fyrr í vikunni. Kanadaher er víða að störfum við að ryðja skriðum af vegum og að reisa nýjan varnargarð við bæinn Abbotsford sem grófst undir skriðu að hluta til. Rigningu er spáð þar um slóðir í næstu viku.

Miklar hamfarir urðu í Bresku Kólumbíu síðastliðið sumar þegar ofsahiti olli fimm hundruð andlátum. Einnig kviknuðu skógareldar sem grönduðu heilu bæjarfélagi.