„Þessi flygill er sannkallaður gæðingur“

Mynd: Menningin / RÚV

„Þessi flygill er sannkallaður gæðingur“

19.11.2021 - 16:52

Höfundar

Víkingur Heiðar Ólafsson heldur þrenna tónleika í Eldborg um helgina þar sem hann leikur verk eftir Mozart af nýútkominni plötu. Hann notar líka tækifærið og vígir glænýjan Steinway-flygil sem Harpa fékk í afmælisgjöf.

„Þetta er flygillinn sem mér tókst að gráta úr ríkisstjórn Íslands,“ segir Víkingur glettinn í viðtali í Menningunni á RÚV. Hann neitaði hins vegar að spila eina einustu nótu, því hann vill að fyrstu hljómarnir sem heyrast úr hljóðfærinu verði á tónleikunum í Hörpu í kvöld.

„Þetta er ótrúlegt hljóðfæri, þessir Steinway-flyglar líta allir eins og út en það er merkilegt hvað þeir eru ólíkir. Þessi flygill er sannkallaður gæðingur, hann er fákur. Köllum hann bara Sleipni.“

Víkingur segir ákveðinn bjarma vera yfir hljómnum í nýja flyglinum. „Með tímanum verða þeir eins og knattspyrnumennirnir, vitrari og strategískari, en missa kannski ákveðna snerpu. Ég myndi segja að gamli flygillinn sé eins og Cristiano Ronaldo, bestur en orðinn 36 ára gamall eða svo, en þessi er að stíga fram á sjónarsviðið. Ég held að hann sé alveg geggjaður.“  

Þetta er annasöm vika hjá Víkingi, þrennir útgáfutónleikar um helgina og svo lék hann með Sinfóníuhljómsveit Íslands á fimmtudag. Hann hyggst taka sér verðskuldaða, en stutta, hvíld á mánudag áður en hann flýgur til Brussell, þar sem hann kemur fram á tónleikum á þriðjudag og miðvikudag.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Bara það að spila á flygil getur reitt fólk til reiði“

Klassísk tónlist

Víkingur Heiðar slær í gegn á Proms

Innlent

Víkingur kveður gamla flygilinn

Klassísk tónlist

Flygillinn í Hörpu of gamall fyrir einleikstónleika