Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Frakkar ætla ekki að hörfa frá Jersey

19.11.2021 - 16:36
epa08411746 Ship's crew member Jean-Baptiste looks after scallops onboard the fishing boat Gros Minet near Le Havre, France, 07 May 2020 (issued 09 May 2020). The French fishing boat Gros Minet has been working since the beginning of the confinement in order to provide fish as France was under lockdown measures taken in an attempt to stop the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/YOAN VALAT  ATTENTION: This Image is part of a PHOTO SET
 Mynd: EPA
Frakkar ætla ekki að bakka með kröfur sínar um öllum útistandandi fiskveiðiheimildum í landhelgi eyjunnar Jersey verði úthlutað til franskra sjómanna. Jersey er sjálfstjórnareyríki á valdi bresku krúnunnar í Ermarsundi, nærri norðurströnd Frakklands.

Clement Beaune, Evrópumálaráðherra Frakklands, segir Frakka standa í áframhaldandi viðræðum og beita þrýstingi í þeim. Þeir krefjast sama fjölda veiðiheimilda og áður en Bretar yfirgáfu Evrópusambandið.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, tekur í sama streng og segir Frakka ætla að halda áfram að berjast fyrir sjómenn landsins.

Talsmenn franskra sjómanna urðu æfir yfir tillögum um að þeir ættu von á milljónum evra í bætur fyrir að setja báta sína í brotajárn þar sem þeir geta ekki lengur sótt veiðar í landhelgi Jersey. Yfirvöld í Jersey krefjast þess að franskir sjómenn geti sannað að þeir hafi veitt í kringum Jersey áður en Bretar yfirgáfu Evrópusambandið í janúar. Margir sjómenn eiga erfitt með að sýna fram á það að sögn AFP fréttastofunnar.

Í ofanálag hafa yfirvöld í Jersey aðeins gefið út tímabundin leyfi til þeirra sem fá þau. Frakkar krefjast þess að leyfin verði varanleg, í samræmi við viðskiptasamning Breta við Evrópusambandið. Alls varðar málið 150 til 200 veiðiheimildir að sögn Beaune.

Harðar deilur hafa verið á milli ríkjanna vegna fiskveiðiheimildanna. Frakkar hótuðu því meðal annars að banna breskum bátum að landa afla sínum í frönskum höfnum og að eftirlit yrði haft með öllum innflutningi frá Bretlandi.

Það kom því sjómönnum verulega á óvart í gær þegar sjávarútvegsráðherrann Annick Girardin virtist sýna uppgjöf í samningum um veiðiheimildir við Jersey. Þá sagði hún stjórnvöld vera að undirbúa um 40 til 60 milljóna evra sjóð svo hægt yrði að greiða sjómönnum bætur fyrir að geta ekki sótt sjóinn.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV