Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Forseti norska Stórþingsins segir af sér

19.11.2021 - 00:36
epa04527674 A general view of the Norwegian Parliament in Oslo, Norway, 13 December 2014. Norwegian media state that several false base stations have been detected near the Norwegian Parliament in central Oslo, which can be used for monitoring movements
Norska Stórþingið í Osló. Mynd:EPA Mynd: EPA - NTB SCANPIX
Eva Kristin Hansen, forseti norska stórþingisins hefur sagt af sér en lögreglurannsókn stendur nú yfir á ætluðum brotum sex þingmanna á reglum um notkun íbúða í Ósló í eigu þingsins.

Frá þessu er greint á vef norska ríkisútvarpsins. Hansen sagði af sér skömmu eftir að gert var heyrinkunnugt um rannsóknina fyrr í dag.  

Hún kveðst þess fullviss að hún sé meðal þeirra þingmanna sem verið sé að rannsaka og það sé óásættanlegt að forseti þingsins sæti lögreglurannsókn. Þess vegna lætur hún af því embætti.

Bakgrunnur málsins er sá að Hansen hélt afnotum af íbúð þingsins í Ósló á árabilinu 2014 til 2017 þrátt fyrir að hún ætti íbúð í Ski í 29 kílómetra fjarlægð frá þinghúsinu.

Reglan er sú að þeir þingmenn sem búa meira en 40 kílómetra þaðan megi nýta sér íbúð í eigu þingsins. Hansen kveðst hafa talið sig fara að reglum og fyrr í dag var hún staðráðin í að stíga ekki til hliðar.