Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Óbúandi í Trékyllisvík ef hvalhræ verður ekki fjarlægt

18.11.2021 - 21:58
Mynd með færslu
 Mynd: aðsend mynd: Valgeir Benediktss - RÚV
Útblásin hnúfubakskýr liggur nú í fjörunni í landi Finnbogastaða í Trékyllisvík í Árneshreppi á Ströndum. Íbúar sveitarinnar telja að ólíft verði í víkinni í vetur ef hræið verður ekki fjarlægt.

Hnúfubakinn rak á land á dögunum og er hræið orðið útblásið að sögn Valgeirs Benediktssonar í Árnesi 2 í Trékyllisvík. Strandir.is greina frá.  Skammt er síðan varðskipið Þór var fengið til að koma 50 grindhvalahræjum úr fjörunni við Mela í Melavík. Þeir voru urðaðir á hafi úti. 

Valgeir segir í samtali við Strandir.is að hræið hafi greinilega rekið að landi fyrir nokkrum dögum og sé orðið útblásið og ólyktin sé óbærileg. 

„Ef ekkert verður aðhafst til að fjarlægja hvalinn þá lýst mér illa á vetursetu hér í Trékyllisvik“ er haft eftir honum.

Hann segir í samtali við fréttastofu að það sé íbúum mikið í mun að hræið verði fjarlægt. Næstu skref séu í höndum MAST, Umhverfisstofnunar og sveitarfélagsins