Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ný stjórn, stjórnarsáttmáli og fjárlög fyrir mánaðamót

18.11.2021 - 17:46
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er bjartsýn á að það takist að mynda ríkisstjórn, kynna nýjan stjórnarsáttmála og leggja fram fjárlög um mánaðamótin.

Hún segir alveg ljóst að ekki hafi verið hægt að kalla þing saman fyrr en niðurstaða undirbúningskjörbréfanefndar vegna talningar í Norðvesturkjördæmi lægi fyrir og vísar því gagnrýni stjórnarandstöðu um seinagang á bug. Líklegast þykir að seinni talning verði látin gilda.

„Ef við sjáum þessa niðurstöðu sem skýrist væntanlega bara eftir helgi yrðu flokksstofnanir flokkanna boðaðar og í framhaldinu er hægt að mynda nýja ríkisstjórn og fjárlagafrumvarp og halda stefnuræðu.“

Hvenær sýnist þér að þetta gæti orðið?

„Ég hef nú verið að horfa til þeirrar viku, sem líklega 29. nóvember að þetta geti gengið í gegn en ég treysti mér eiginlega ekki til að segja til um tímasetningar því verðum fyrst að sjá niðurstöður þingsins.“

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt það harðlega að fjárlagfrumvarpið verði afar seint á ferðinni og það sama megi segja um þingstörfin, hvað segir þú við því?

„Það er auðvitað svo að við erum öll undir sömu sök seld hvað það varðar að það er ekki hægt í raun og veru að setja þing fyrr en niðurstaða kjörbréfanefndar liggur fyrir,“ segir Katrín.

Ertu bjartsýn á að þið getið myndað þessa ríkisstjórn fyrir mánaðamótin eða um mánaðamót?

Já, ég er bara mjög bjartsýn á það,“ segir Katrín.