Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fimmtán féllu í mótmælum í Súdan

18.11.2021 - 12:06
Sudanese confront the police during a protest against the military coup that ousted government last month, in Khartoum, Sudan, Wednesday, Nov. 17, 2021. Prime Minister Abdalla Hamdok is currently under house arrest in the capital of Khartoum. He and more than 100 other government officials were detained during the coup. Many have been kept in undisclosed locations. (AP Photo/Marwan Ali)
 Mynd: AP
Að minnsta kosti fimmtán féllu og tugir særðust þegar þúsundir íbúa Khartoum, höfuðborgar Súdans, komu saman í gær og mótmæltu valdaráni hersins í síðasta mánuði. Mótmælin standa enn. Engan bilbug er að finna á herstjórninni, þrátt fyrir að valdaránið hafi verið fordæmt víða um heim.

Efnt var til aðgerðanna í tilefni þess að í gær hefði hinn borgaralegi hluti bráðabirgðastjórnarinnar í Súdan átt að taka við völdum. Skipuleggjendum mótmælanna tókst að safna saman fjölmennum hópum fólks í nokkrum borgarhverfum þrátt fyrir að símasamband hafi verið rofið. Netið hefur ekki virkað sem heitið getur síðan herinn rændi völdum.

Hermenn beittu táragasi gegn mótmælendum og gripu síðan til skotvopna. Flestir létu lífið í norðurhluta borgarinnar. Tugir særðust, að sögn lækna á sjúkrahúsum borgarinnar. Þeir saka hermenn um að hafa beitt táragasi inni á sjúkrahúsunum og hindrað að sumir hinna særðu væru fluttir þangað inn.

Að sögn fréttamanns AFP fréttastofunnar eru hermenn byrjaðir að fjarlægja götuvígi sem mótmælendur hlóðu upp í gær. Símasamband er komið á að nýju, en netið virkar ekki enn. Mótmælendur eru enn á götum úti. Skotið hefur verið táragassprengjum að þeim, en engar fréttir hafa borist af mannfalli.

Alls hafa 39 látið lífið frá því að herinn rændi völdum.