Dalvíkurskóli lokaður fram að helgi vegna smita

18.11.2021 - 15:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Vegna kórónuveirusmita hefur verið ákveðið að loka grunnskólanum á Dalvík fram að helgi. Íris Hauksdóttir, þjónustu- og upplýsingafulltrúi Dalvíkurbyggðar, segir í samtali við fréttastofu að kennarar hafi greinst smitaðir á heimaprófi í gær auk eins nemanda. Þegar nemandinn greindist var ákvörðun tekin um lokun fram að helgi.

Íris segir að í Dalvíkurbyggð vinni mjög skipulagt fólk og það vinni vel úr þeim vanda sem það stendur nú frammi fyrir. Allir nemendur og kennarar við grunnskólann fóru í PCR próf í dag, og eiga von á svörum frá og með seinni parti dagsins. Nemendur grunnskólans eru í smitgát, en einn hópur í einum bekk var sendur í fimm daga sóttkví í dag að sögn Írisar. Starfsmaður í bekknum greindist með COVID-19. 

Ekki hefur þurft að loka öllum fyrirtækjum í bænum, heldur hafa Dalvíkingar fundið lausn á málunum að sögn Írisar. „Við erum með ótrúlega flott fólk á öllum vígstöðvum sem tekur réttar ákvarðanir á réttum tímapunktum,“ segir Íris við fréttastofu og bætir því við að bæjaryfirvöld eigi í góðu samstarfi við Almannavarnir og rakningarteymið.

Leikskólinn á Dalvík er opinn en hann lokaði í fimm daga rétt fyrir jól í fyrra vegna smita. Þá lokaði skólinn ekki. Íris segir alla bæjarbúa ótrúlega jákvæða og taka stöðunni af þvílíku æðruleysi og skilningi. „Það má hrósa íbúum fyrir samstöðu og vilja til góðra verka,“ segir Íris við fréttastofu.

Á vef Dalvíkurbyggðar segir jafnframt að lokað sé fyrir gesti og utanaðkomandi fram yfir helgi á dvalarheimilinu Dalbæ vegna ástandasins. Eins er haft eftir Almannavörnum að tryggja þurfi að allt íþrótta- og félagsstarf sé í fríi á meðan náð er utan um þetta.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV