Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Bílum ætlað að stöðva bandarískar byttur

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay.com
Ný lög í Bandaríkjunum skylda þarlenda bílaframleiðendur á næstu árum til að búa framleiðsluvöru sína búnaði til að greina áfengismagn í blóði ökumanna. Bílarnir væru þá búnir nemum sem greina áfengisgufur í andardrætti og skynjurum í stýri og ræsirofa.

Slíkur búnaður, örmáir skynjarar, hefur verið í þróun síðan 2008. Mæli þeir hátt áfengismagn verði ökumanninum gert ókleift að ræsa bílinn. Bílaframleiðendur og eftirlitstofnanir hafa þrjú ár til að útfæra ákvæði laganna.

Joe Biden Bandaríkjaforseti staðfesti lögin á mánudag en efasemdarmenn óttast að búnaðurinn greini ranglega of hátt magn áfengis eða jafnvel að bílar geti orðið vitni í sakamálum gegn eigendum sínum.

Þau sem hafa barist gegn ölvunarakstri um árabil fagna lagasetningunni en leyfilegt er að aka bifreið með hærra áfengismagn í blóðinu í Bandaríkjunum en í flestum öðrum ríkjum. Talið er að megi rekja um tíu þúsund dauðsföll í umferðinni þar í landi til ölvunaraksturs.